Hálslón ekki haft bein áhrif á gróðurfarið í kring

Engin bein áhrif á gróðurfar í Kringilsárrana, á Vesturöræfum eða Fljótsdalsheiði hafa mælst vegna Hálslóns Kárahnjúkavirkjunar eftir margra ára mælingar. Óbein áhrif eru þó til staðar.

Þetta er megin niðurstaða rannsókna og mælinga sem Náttúrustofa Austurlands (NA) hefur séð um um langt skeið en það er Landsvirkjun sem hefur greitt fyrir þá þjónustu stofnunarinnar.

Ýmsar skýrslur hafa birst síðastliðin ár þessu tengt en í vor kom út sérstök skýrsla þar sem allar rannsóknirnar eru dregnar saman yfir langt tímabil. Sú skýrsla, Decadal vegetation changes in a sub-arctic alpine ecosystem, var ritrýnd af óháðum áðilum og má finna hér.

Niðurstöðurnar samandregnar sýna að Hálslónið eitt og sér hefur nánast engin mælanleg áhrif haft á gróðurfar í kring en þó hátt sé uppi er gróðurfar nokkuð fjölbreytt. Töluverðar neikvæðar breytingar hafa vissulega orðið á hluta svæðisins frá því að lónið var myndað með stíflugerð á sínum tíma. Þar fyrst og fremst um að ræða margvíslega samverkandi þætti og áhrif af mannvöldum þar á meðal.

Hins vegar er megin orsök gróðurtaps eða breytinga talin vera fjölgun heiðagæsa og hreindýra á stórum hlutum þarna í kring auk breytinga á hagagöngu hreindýranna. Sú fjölgun hefur aukið álag á gróður og vegna þess koma gróðurbreytingar fram fyrir utan það beitar- og varpland sem fór upprunalega undir lónið. Þá eru áhrif loftlagsbreytinga einhver en þau falla í skuggann af öðrum þáttum sem rannsakaðir voru.

Á sínum tíma var töluvert varað við slæmum áhrifum Hálslóns á gróðurfar í kring. Það hefur raungerst að hluta til en áhrifin undantekningarlítið óbein. Mynd/Skjáskot Náttúrustofa Austurlands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar