Haraldur Ingi Haraldsson: Fjármálaöflin og sægreifarnir fá enn sterkari stöðu

Haraldur Ingi Haraldsson, oddviti Sósíalistaflokks Íslands í Norðausturkjördæmi, segir úrslit kosninganna vera vonbrigði fyrir flokkinn en hann muni halda ótrauður áfram. Sósíalistar fengu 4,1% atkvæða á landsvísu og náðu því ekki yfir 5% mörkin til að ná inn þingmönnum. Sósíalistar í NA-kjördæmi fengu nákvæmlega sama hlutfall atkvæða og flokkurinn á landsvísu en í könnunum dagana fyrir kosningar var Haraldur Ingi að mælast sem kjördæmakjörinn þingmaður.


Haraldur Ingi segir að þær hugmyndir sem Sósíalistar boða hafi orðið undir í kosningunum. Hann segir núverandi stjórn vera hægristjórn og búast megi við áframhaldi á þeirri stefnu. „Úrslitin eru vonbrigði. Það eru einnig vonbrigði að sjá að það stefnir í áframhaldandi hægristjórn sem mun leggja enn meiri áherslu á einkavæðingu í innviðum en áður, áframhaldandi heimsmet í skerðingum á aldraða og öryrkja og áframhaldandi skattlagningu á fátækasta launafólkið. Fjármálaöflin og sægreifarnir fá enn sterkari stöðu en þeir þó hafa. Sósíalistaflokkurinn hefur nákvæmlegan þveröfuga stefnu í öllum þessum málum. Sú stefna fékk ekki meira fylgi en raun bar vitni.“ segir Haraldur Ingi.


Þrátt fyrir úrslit kosninganna segir Haraldur að Sósíalistaflokkurinn sé hvergi nærri hættur og ætli sér að eflast á næstu árum. „Það er engan bilbug á okkur að finna. Við verðum öflugasti stjórnarandstöðuflokkurinn þó það verði utan Alþingis í bili,“ segir Haraldur að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.