Harma mistök við útnefningu 690 Vopnafjarðar

Stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA) harmar mistök sem áttu sér stað þegar heimildamyndin 690 Vopnafjörður var fyrst tilnefnd til Edduverðlaunanna á undanþágu en síðan dæmd úr leik.

Þegar tilkynnt var um tilnefningar til Edduverðlaunanna 2019 var 690 Vopnafjörður á lista yfir bestu heimildamyndirnar. Nokkrum dögum síðar var tilnefningin afturkölluð og Litla Moskva, um sögu sósíalismans í Neskaupstað, komin í staðinn.

Þessi breyting hefur síðar hlotið harða gagnrýni, meðal annars því engar skýringar fylgdu henni opinberlega.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst snýst málið um frumsýningu 690 Vopnafjarðar. Í Edduna 2019 eru gjaldgengar myndir frumsýndar á Íslandi 2018. Vopnafjarðarmyndin var frumsýnd hérlendis árið 2017 en fyrst sýnd erlendis 2018.

Í tilkynningu frá stjórnar ÍKSA í gær segir að myndinni hafi verið veitt undanþága frá reglum um umsókn um Edduverðlaunin 2019 af formanni akademíunnar, án heimildar stjórnar eða fullnægjandi upplýsingaleitar.

Ákvörðun um tilnefningu Litlu Moskvu í stað 690 Vopnafjarðar er staðfest en stjórn ÍKSA kveðst átta sig á alvarleika málsinsog harma þau mistök sem átt hafi sér stað. Aðstandendur 690 Vopnafjarðar eru beðnir velvirðingar á mistökunum. Leikstjóri 690 Vopnafjarðar er Karna Sigurðardóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar