
HEF kannar hugsanlega jarðhitavinnslu í Eiðaþinghá
„Þetta er óháð þeim hugmyndum að leggja heitt vatn til Eiða en getur auðvitað orðið eitt og hið sama ef þarna finnst nægilega heitt vatn í vinnanlegu magni,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF.)
Sérfræðingar í jarðhitarannsóknum eru þessa dagana að rannsaka, fyrir hönd HEF, hvort unnt sé að vinna nægilega heitt vatn úr borholum nálægt Breiðavaði en vísbendingar eru um að slíkt sé mögulegt.
Vinnan er rétt á byrjunarreit en á þessum slóðum eru gamlar borholur þar sem heitt vatn fannst á sínum tíma en ekki í vinnanlegu magni þá. Ef það finnst við leit nú eru góðar líkur á að Eiðaþinghá og mögulega nærsveitir geti notið góðs af til framtíðar. Aðalsteinn segir að bora verði á staðnum til að fá fullvissu um stöðu mála og HEF ráðgerir nokkrar slíkar borholur á næstunni.
„Ef þarna finnst nægilega mikið vatn og hiti þá ætti það að vera orðið ljóst um mitt sumar eða svo og þá skoðum við næstu hugsanlegu skref strax í kjölfarið.“
Aðalsteinn segir enn unnið áfram að því að kanna að leggja hitaveitu að Eiðum burtséð frá því sem finnst hugsanlega við Breiðavað. Ekki sé ljóst á þessu stigi hvort slík hitaveitulögn yrði lögð yfir Lagarfljótsbrú, gegnum Egilsstaði og svo áfram út héraðið eða hvort vænlegra sé að lögnin liggi úteftir Hróarstungu og svo þvert yfir fljótið gegnt Eiðum.