Heildarendurnýjun á sparkvöllum í Fjarðabyggð

„Við viljum einfaldlega vera með þessi mál í lagi en með þessu erum við að bregðast við umræðunni í samfélaginu um að dekkjakurlið geti verið skaðlegt heilsu,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, um ákvörðun bæjarráðs að fjarlægja svarta dekkjakurlið af fimm sparkvöllum sveitarfélagsins.

Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti í sumar að láta fjarlægja hið umdeilda svarta dekkjagúmmí af öllum sparkvöllum innan sveitarfélagsins og hafa starfsmenn á vegum fyrirtækisins Altis unnið að því undanfarna daga. Þess í stað verður grátt EPDM-gúmmí sett á vellina.

Alls eru fimm sparkvellir í Fjarðabyggð og verður svarta dekkjakurlið fjarlægt af þeim öllum í haust. Nýtt gúmmí er komið á vellina á Reyðarfirði og Stöðvarfirði en þar voru vellirnir sjálfir í góðu ásigkomulagi. Skipta þarf út grasinu á sparkvöllunum í Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði og verður það gert næsta vor ásamt því að leggja á þá nýtt gúmmí.

„Nýja gúmmíið er grátt á litinn og litar ekki eins mikið og hitt og inniheldur ekki óæskileg efni. Þetta skiptir miklu máli fyrir sveitarfélagið okkar, vellirnir eru vel nýttir af unga fólkinu og með þessu erum við að skapa öruggt og heilbrigt umhverfi fyrir börnin okkar. Mikilvægt er að hagur barna sé ávallt hafður að leiðarljósi við slíka ákvarðanatöku,“ segir Páll Björgvin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.