„Heilsa snýst ekki bara um hreyfingu og næringu“

„Verkefnið getur skipt töluverðu máli fyrir okkur í stóra samhenginu. Það gerir Seyðisfjörð m.a. að vænlegum kosti til að búa á, þar sem skilyrði til betra lífs eru fyrir hendi,“ segir Eva Björk Jónudóttir, þjóustufulltrúi Seyðisfjarðar, en Seyðisfjarðarkaupstaður og Embætti landlæknis undirrituðu samstarfssamning í gær um þátttöku kaupstaðarins í verkefninu Heilsueflandi samfélag.



Heilsueflandi samfélag, er þróunarverkefni, sem miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu allra aldurshópa. Meðal annars með auknum gæðum og framboði á hlutum sem gera íbúum gott.

Með undirritun þessa samnings bætist Seyðisfjörður í hóp þeirra sveitarfélaga sem skuldbinda sig til þess að efla lýðheilsu og lífsgæði íbúa sinna á markvissan hátt. Þau eru nú 11 talsins og ná til ríflega helmings íbúa landsins.


Margar hugmyndir á lofti

„Við viljum gjarnan gera gott samfélag betra og teljum að þetta sé góð leið til þess. Heilsueflandi samfélag eykur framboð og fjölbreytni á hlutum sem geta aukið lífsgæði íbúa.

Stóra markmiðið er að heilsuefling- og meðvitund verði sjálfbær meðal okkar hér á Seyðisfirði. Heilsa snýst ekki bara um hreyfingu og næringu, heldur líka um öryggi, geðrækt, menningu og margt fleira. Við viljum gjarnan sjá samfélagið vinna að þessu saman og það eru uppi margar hugmyndir að því hvernig það væri hægt. Stýrihópurinn fundar í næstu viku og eftir það mun vonandi eitthvað fara að gerast. Einnig er á dagskrá íbúafundur þar sem verkefnið verður útskýrt betur, en þó líklega ekki fyrr en í haust.“

Ljósmynd: Birgir Jakobsson landlæknir, Héðinn Svarfdal verkefnastjóri, Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri og fulltrúar stýrihópsins á Seyðisfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.