![](/images/stories/news/2022/kolbeinsgata_thank_hi_feb22_web.jpg)
Heilt þak fauk af húsi á Vopnafirði
Þak virðist hafa fokið í heilu lagi af gömlu íbúðarhúsi við Kolbeinsgötu á Vopnafirði í nótt. Skemmdir urðu á húsum í nágrenninu.„Við fengum útkall um klukkan kortér í tvö þar vegna hluta úr húsinu sem voru á ferðinni annars staðar í bænum. Þá hófst leit að upprunastaðnum,“ segir Hinrik Ingólfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Vopna.
Leitin leiddi björgunarsveitarfólkið að húsi sem stendur við hlið kirkjunnar á Kolbeinsgötu. Það er byggt árið 1900 og því friðað vegna aldurs. Húsið er á tveimur hæðum, sú efri var mannlaus en íbúum af neðri hæðinni var komið í öruggt skjól. Svo virðist sem þeir hafi ekki orðið varir við lætin.
Næsta verk var að tryggja það sem hægt var og hafa hemil á brakinu sem var á ferðinni í bænum en það barst að sögn Hinriks ótrúlega víða.
„Það voru stórir flekar af þakinu, sperrur og meðfylgjandi, uppi í Holtahverfi. Það er svo mikið samfast að þetta virðist hafa farið nánast í heilu lagi. Hlutir úr þakinu berast upp á milli næstu húsa og skera meðal annars í sundur ljósastaur á leiðinni.“
Tjón varð á öðrum húsum, ytra byrði rúðu brotnaði í minnst einu, en skemmdirnar koma betur í ljós nú þegar birtir. Ekki er vitað um meiðsli á fólki.
Samkvæmt tölum úr veðurmæli á Skjaldþingsstöðum var meðalhraði vindhraði milli klukkan eitt og tvö í nótt 25-28 m/s og yfir 40 m/s í hviðum.
„Það var hávaðarok hérna í nótt. Við sáum minniháttar skemmdir, svo sem á skjólveggjum við sólpalla auk smáhluta á borð við fjúkandi ruslatunnur á ferðum okkar um bæinn.“
Myndir: Hinrik Ingólfsson
![kolbeinsgata ljosastaur hi feb22 web](/images/stories/news/2022/kolbeinsgata_ljosastaur_hi_feb22_web.jpg)