Heilt þak fauk af húsi á Vopnafirði

Þak virðist hafa fokið í heilu lagi af gömlu íbúðarhúsi við Kolbeinsgötu á Vopnafirði í nótt. Skemmdir urðu á húsum í nágrenninu.

„Við fengum útkall um klukkan kortér í tvö þar vegna hluta úr húsinu sem voru á ferðinni annars staðar í bænum. Þá hófst leit að upprunastaðnum,“ segir Hinrik Ingólfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Vopna.

Leitin leiddi björgunarsveitarfólkið að húsi sem stendur við hlið kirkjunnar á Kolbeinsgötu. Það er byggt árið 1900 og því friðað vegna aldurs. Húsið er á tveimur hæðum, sú efri var mannlaus en íbúum af neðri hæðinni var komið í öruggt skjól. Svo virðist sem þeir hafi ekki orðið varir við lætin.

Næsta verk var að tryggja það sem hægt var og hafa hemil á brakinu sem var á ferðinni í bænum en það barst að sögn Hinriks ótrúlega víða.

„Það voru stórir flekar af þakinu, sperrur og meðfylgjandi, uppi í Holtahverfi. Það er svo mikið samfast að þetta virðist hafa farið nánast í heilu lagi. Hlutir úr þakinu berast upp á milli næstu húsa og skera meðal annars í sundur ljósastaur á leiðinni.“

Tjón varð á öðrum húsum, ytra byrði rúðu brotnaði í minnst einu, en skemmdirnar koma betur í ljós nú þegar birtir. Ekki er vitað um meiðsli á fólki.

Samkvæmt tölum úr veðurmæli á Skjaldþingsstöðum var meðalhraði vindhraði milli klukkan eitt og tvö í nótt 25-28 m/s og yfir 40 m/s í hviðum.

„Það var hávaðarok hérna í nótt. Við sáum minniháttar skemmdir, svo sem á skjólveggjum við sólpalla auk smáhluta á borð við fjúkandi ruslatunnur á ferðum okkar um bæinn.“

Myndir: Hinrik Ingólfsson

kolbeinsgata ljosastaur hi feb22 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar