Helga Jónsdóttir enn á launum hjá Fjarðabyggð

helga_jnsdttir_vefur.jpgHelga Jónsdóttir, fyrrverandi bæjarstýra í Fjarðabyggð, er enn á launum hjá sveitarfélaginu þótt komið sé fram yfir þann biðlaunatíma sem samið var um í upphafi. Sveitarfélagið greiðir að auki flutningskostnað hennar til Reykjavíkur.

 

Austurglugginn greinir frá þessu í dag. Þar segir að Helgu hafi verið tryggður sex mánaða biðlaunaréttir í ráðningarsamningi en samkvæmt uppgjöri við sveitarfélagið fær hún greitt „vel fram yfir umsamið biðlaunatímabil.“ Helga lét af starfi um miðjan september.

Samkvæmt heimildum blaðsins er ekki um að ræða hefðbundinn starfslokasamning heldur uppgjör vegna áuninna réttinda samkvæmt ráðningarsamningi sem meðal annars stafa af vannýttu orlofi.

Blaðið hefur ekki fengið samninginn afhentan og er því borið við að um trúnaðarmál sé að ræða. Uppgjörið var samþykkt af bæði fyrrverandi og núverandi bæjarráðum Fjarðabyggðar. Enginn núverandi fulltrúa í bæjarráði vildi tjá sig um uppgjörið þegar eftir því var leitað.

Þá liggur fyrir reikningur hjá bæjarráði Fjarðabyggðar vegna flutningskostnaðar Helgu frá Fjarðabyggð til Reykjavíkur og hljóðar sá kostnaður upp á 400.000 – 450.000 krónur.

Áætlað er að heildarlaun Helgu hjá Fjarðabyggð hafi verið um ein milljón króna á mánuði. Hún tók við starfi ráðneytisstjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu þann 1. desember síðastliðinn.

Nánar er fjallað um málið í Austurglugganum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar