Helgi Gíslason nýr sveitarstjóri í Fljótsdal

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur gengið frá ráðningu Helga Gíslasonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem nýs sveitarstjóra.

Í tilkynningu kemur fram að Helgi sé fæddur og uppalinn Héraðsbúi, ættaður frá Helgafelli í Fellabæ þar sem hann bjó til ársins 2004.

Helgi er skógfræðingur að mennt, lærður í Svíþjóð. Hann var framkvæmdastjóri Héraðsskóga fyrstu 14 starfsár þess verkefnis en hefur undanfarin 16 ár stýrt Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Í tilkynningu segir að Helgi þekki vel til fólks og samfélags í Fljótsdal, atvinnufyrirtækja og stofnana en hann var um tíma formaður stjórnar Gunnarsstofnunar.

Alls bárust 18 umsóknir um starfið en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Ráðningin var staðfest á fundi sveitarstjórnar í gær og segir í tilkynningu að hún hafi verið samþykkt einróma.

Mynd: Sigurður Bogi Sævarsson



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar