Helgi Hall: Vatnajökulsþjóðgarður er sýndarmennska

helgi_hall_naust11.jpgNáttúrufræðingurinn Helgi Hallgrímsson segir meira hugsað um ferðamenn heldur en náttúruna í Vatnajökulsþjóðgarði. Gestastofan á Skriðuklaustri er til marks um það. Öfgahópar í báðar áttir geri það að verkum að náttúruvernd á Íslandi hafi ekki verið jafn illa stödd í áratugi.

 

Þetta kom fram í máli Helga á vorráðstefnu Náttúruverndarsamtaka Austurlands fyrir skemmstu. Þar sagði hann þjóðgarðinn snúast frekar um hagnýtingu náttúrunnar heldur en verndun hennar.

„Vatnajökulsþjóðgarður er sýndarmennska eins og gestastofan á Klaustri ber vitni um. Þar er ekki minnst einu orði á lónin. Það er að mínu viti þöggun. Markmiðið er að fjölga ferðamönnum, fá útlendinga til að skapa ný atvinnutækifæri,“ sagði Helgi.

Þrátt fyrir mikla umræðu og hörð átök um Kárahnjúkavirkjun telur Helgi þar hafa verið stigið, hvernig sem á er litið, skref afturábak í íslenskri náttúruvernd.

„Staða náttúruverndar á Íslandi hefur ekki verið jafn slæm í áratugi. Þar er um að kenna öfgahópum á báða bóga eftir Kárahnjúkavirkjun.“

Helgi nefnir þá sem harðast hafa barist gegn nýjum trjátegundum á Íslandi sem dæmi um þá sem hafi skaðað íslenska náttúruvernd.

„Það er misskilin náttúruvernd. Eyðing skóga er eitt stærsta umhverfisvandamál heimsins. Menn verða að skilja að íslensku laufskógarnir eru ekki timburtækir. Barrskógar eru því eðlilegir í nýtingu landsins. Aðrar jurtir, samanber sveppir, hafa verið fluttar inn. Þar skiptir ekki máli um hvort það var fyrir 10, 100 eða 1000 árum,“ sagði Helgi sem fékk íslensku bókmenntaverðlaunin í ársbyrjun fyrir bók sína um íslenska sveppi.

Þrátt fyrir allt hefur Helgi ekki áhyggjur af náttúrunni. „Sem betur fer lætur náttúran sig engu skipta skoðanir skammsýnna manna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.