Helmingur desemberbarnanna fæddust um jólin

„Það fæddust tólf börn á aðfangadag og jóladag í Reykjavík í 150 þúsund manna samfélagi og þrjú hér í 10 þúsund manna samfélagi. Þetta er helmingur desemberbarnanna okkar og ég held að slíkt hafi ekki gerst áður,“ segir Hrafnhildur Lóa Guðmundsdóttir, ljósmóðir í Neskaupstað.



Töluverður erill var á fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað um jólahátíðina, en eitt barn fæddist aðfaranótt aðfangadags, tvö á jóladag og eitt í gær, 27. desember. Tvö þeirra voru úr Fjarðabyggð og tvö af héraði, tveir drengir og tvær stúlkur. Þrjú þeirra voru fyrstu börn foreldra sinna. Hrafnhildur Lóa segir að allt hafi gengið vel og öllum heilsist vel.

„Það er mjög hátíðleg stemmning hjá okkur um jólin og um leið og maður er kominn í vinnuna hverfur allir bömmer yfir því að vera ekki heima hjá sér á þessum tíma. Þetta var mjög sérstakt fyrir mig því sjálf átti ég barn á jólanótt fyrir fjórum árum síðan.

Það er mín tilfinning að það sé minna um fæðingar um jól en yfirhöfuð á öðrum tímum ársins. Ég veit ekki hvernig á að orða þetta, en konur geta ekki haft áhrif á það hvenær börnin koma, heldur ferkar að við getum haft aðeins um það að segja hvenær þau koma ekki – það er eins og við getum sett það aðeins á „hóld“ þegar okkur finnst að við getum ekki átt þau, eins og yfir blá-jólahátíðina.

Eins og hjá sjálfri mér á sínum tíma, þá var ég með hríðir yfir jólamatnum og pökkunum, en þegar ég var búin að koma eldri börnunum í rúmið þá var ég tilbúin og átti drenginn klukkan þrjú, aðfaranótt jóladags. Drengurinn sem fæddist aðfaranótt aðfangadags var farinn heim með foreldrum sínum seinnipart aðfangadags og foreldrar þeirra barna sem fæddust á jóladag náðu að vera heima yfir jólamatinn á aðfangadagskvöld, þannig að eini tíminn sem ég náði að fara heim var sá tími.“

Hrafnhildur Lóa segir það ekkert tiltökumál að vera í vinnunni um jól.

„Þetta er ekki vinna, heldur lífsstíll – eða hugsjón öllu heldur, það velst aðeins fólk í þetta sem vill gefa allt sem það á. Ef ég get ekki verið heima hjá mér á aðfangadagskvöld þá vil ég hvergi annarsstaðar vera en í vinnunni.“

Jóladrengurinn á myndinni fæddist klukkan 05.15 á jóladagsmorgun og er fyrsta barn þeirra Ingiborgar Jóhönnu Kjerúlf og Arnars Jóns Óskarssonar. Hann var 3.420 grömm og 53 sm. Þau búa á Egilsstöðum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.