Helmingur þjóðarinnar hefur hug á að koma austur

Um helmingur þeirra Íslendinga sem hyggja á ferðalög í sumar hafa hug á að heimsækja Austurland. Konur eru spenntari fyrir svæðinu en karlar.

Þetta kemur fram í markaðsrannsókn á ferðalögum innanlands, sem EMC rannsóknir og auglýsingastofan Hvíta húsið gerðu í byrjun maí.

Alls sögðust um 90% aðspurðra líklegt að þau myndu ferðast innanlands í sumar. Þeir voru spurðir frekar um til hvaða landshluta væri líklegt að þeir myndu heimsækja Austurland. Það skilar fjórðungnum í þriðja sætið, Norðurland var vinsælast með 69% og Suðurland þar á eftir með 64%.

Ýmislegt áhugavert kemur í ljós þegar tölurnar fyrir Austurland eru skoðaðar nánar. Þannig er svæðið vinsælla meðal kvenna, 53% þeirra vilja heimsækja svæðið en 49% karla. Þá er svæðið vinsælla hjá hópnum 18-44 ára en 45 ára og eldri auk þess sem íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að koma austur en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Von er á flestum gestum í júlí, 90% aðspurðra segjast verða á ferðinni þá. Júní og ágúst eru einnig vinsælir, 2/3 verða á ferðinni þá. Flestir reikna með að fara í tvær eða fjórar ferðir og verði 6-15 daga í þeim.

Þeir sem komnir eru yfir fimmtugt eru líklegri til að fara bæði fleiri og lengri ferðir en þeir sem yngri eru. Könnunin sýnir fram á að efnahagur hefur áhrif á ferðalögin, þeir sem eru í miðstétt og efri stétt eru líklegri til að ferðast og vera lengur á ferðinni en þeir sem eru í lægri stétt. Þá eru þeir sem búa einir ólíklegri til að vera á ferðinni en þar sem fleiri eru í heimili.

Þessir þættir hafa áhrif á hvaða gistimöguleika fólk velur sér. Flestir, eða 60%, ætla af stað með tjald, fellihýsi eða annað slíkan búnað, yfir 40% velja sumarbústaði og orlofshús og aðeins færri verða á hótelum. Þeir sem hafa minna á milli handanna eða eru með stærri fjölskyldur velja síður gististaðina og þá virðast íbúar landsbyggðarinnar líklegri til að vera með tjaldhýsið í eftirdragi en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Alls sögðust 60% reikna með að ferðast meira innanlands í sumar en í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar