Heppinn að fara ekki lengra en á minnisvarðann

Einn meiddist lítillega þegar bifreið með fjóra innanborðs skautaði út úr beygjunni við Neðri-Staf á leiðinni til Seyðisfjarðar í gær. Bifreiðin endaði á minnisvarðanum sem þar stendur og geta farþegarnir prísað sig sæla með að hafa hafnað þar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni é Egilsstöðum rann bíllinn út af í beygju í hálku í gær, lenti síðan á enn meiri hálku á bílastæðinu og skautaði þaðan á minnisvarðann.

Fjórir voru í bílnum og slasaðist einn þeirra lítillega.

Ljóst er hins vegar að enn verr hefði getað farið enda hátt fall fram af útsýnisstaðnum niður í Skessubotna.

Minnisvarðinn var reistur árið 1983 til minningar um Þorbjörn Arnoddsson, bifreiðastjóra á Seyðisfirði. Veturinn 1952-53 hóf hann snjóbílaakstur yfir Fjarðarheiði og rauf þar með vetrareinangrun staðarins.

Þorbjörn hlaut riddarakrossinn fyrir brautryðjendastarf á sviði samgöngumála.

Minnismerkið er gert úr stuðlabergi úr Hjaltastaðaþinghá. Forsúlan táknar þann sem ryður brautina og sækir á brattann en minni súlurnar fyrir aftan þá sem á eftir fylgja. Því var valin staður þar sem þeir sem koma yfir heiðina sjá kaupstaðinn fyrst.

Mynd: Sigrún Guðjónsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar