Héraðslækningar eiga enn fullt erindi í dreifbýli
Þörf er á að koma upp sérstakri þjálfun sem miðar að því að mennta heilbrigðisstarfsfólk til starfa í dreifbýli. Slíkt er mikilvægt til að tryggja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.Sú var tíðin hérlendis að héraðslæknar voru starfsheiti, læknar voru þá gjarnan einir með ákveðið landssvæði. Margt hefur breyst síðan en á undanförnum árum hefur skotið upp kollinum sérgrein innan læknisfræðinnar sem kallast héraðslækningar og miðar að því að styrkja einkum lækna til starfs í dreifbýli.
Hérlendis var stefnt að því að koma upp tveggja ára sérfræðinámi í héraðslækningum. Slíkt markmið var í byggðaáætlun 2018-24 en hefur ekki enn orðið að veruleika.
Endurmenntun fyrir lækna af landsbyggðinni
Eyjólfur Þorkelsson, yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð, ræddi framtíð héraðslækninga í erindi sem hann hélt á Læknadögum í janúar. Hann segir mikið gagn í þessari sérgrein.
„Megnið af læknaskólum heimsins eru í þéttbýli og megnið af stúdentum þeirra eru uppaldir í þéttbýli. Viljum við lokka þessa lækna til að vinna í dreifbýli verðum við að búa þeim farveg til þess,“ segir hann
„Læknar sem eru úr dreifbýli eða þegar þeir starfa þar geta ef til vill notið annarskonar ávinnings af héraðslækningaprógramminu. Þeim gefst þar kostur á að auka við þekkingu sína og færni, meðal annars með námsdvölum eða kúrsum á öðrum stofnunum hérlendis sem og erlendis.
Þar sem hluti af prógramminu er í formi námskeiða, sem öllum læknum er hollt að viðhalda með reglulegu millibili en verða því miður oft út undan. Sjá má fyrir sér að með sérnáminu skapist forsendur fyrir skipulagðri viðhaldsmenntun sem því miður hefur skort hérlendis. Það mun ekki bara nýtast læknum heldur einnig öðrum viðbragðsaðilum í dreifbýli og þannig lyfta fagmennsku og færni almennt.“
Samfélagið þarf að hugsa um heilbrigðisstarfsfólkið
Eyjólfur bendir á að lykilþáttur í að lokka heilbrigðisfagfólk út í dreifbýlið sé að skapa jákvæða upplifun í starfi sem allra fyrst á starfsferlinum. „Mikilvægur þáttur sérnáms í héraðslækningum er aukin kennsla og þjálfun í að móta rannsóknaspurningar svo bjóða megi læknanemum á bakkalárstigi áhugaverð rannsóknarefni í dreifbýli. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að lykilþáttur í að lokka fagfólk út í dreifbýlið er að skapa þeim jákvæða upplifun af starfi í dreifbýli snemma á starfsferlinum. Sú áhersla kann að ýta undir bætta nýliðun seinna meir, auk þess að afla áhugaverðra upplýsinga um heilsufar fólks í dreifbýli,“ bætir Eyjólfur við.
Hann segir að ekki þurfi að útskýra fyrir íbúum landsbyggðarinnar ávinninginn af því að ná að halda lengur í lækna sem séu vel þjálfaðir þannig þeir geti veitt góða þjónustu. „Stjórnvöldum ætti því að vera akkur í að búa einmitt svo um hnútana að um allt land sé samfelld og styrk mönnun. Til þess þarf fjármagn og markvissa nýtingu þess en vandfundin er skýrari leið til slíks en uppbygging undirsérgreinar í héraðslækningum.“
Það er þó ekki þar með sagt að verið sé að horfa til þess að aftur verði héraðslæknar einir með stórt svæði. „Að búa læknum þannig menntun og umhverfi að þeim líði vel að sinna starfi sínu er eilífðarverkefni háskólasamfélags og fagfélaga.
Að valdefla samfélögin til að finna til ábyrgðar sinnar gagnvart þessum mikilvægu þegnum og fjölskyldum þeirra er síst vanþarfara verkefni. Hingað til hefur kröftum og samvinnu ef til vill verið dreift of víða og árangurinn verið eftir því.“
Mynd: Aðsend
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.