Hlaupið er eins og krabbameinsmeðferð: Alltaf eitthvað mótlæti

mfbm_uia_08062011_0055_web.jpgHlauparnir í áheitahlaupinu „Meðan fæturnir bera mig“ komu í Egilsstaði í dag í slyddu og roki. Austfirðingar hafa tekið vel á móti hópnum og hlaupið með á nokkrum köflum. Hlaupið er til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna hringinn í kringum landið.
 
„Hlaupið hefur verið eins og krabbameinsmeðferð, það er alltaf eitthvert mótlæti,“ segir Signý Gunnarsdóttir, ein af forsprökkum hópsins. „Við byrjuðum í blíðu fyrstu dagana, síðan lentum við í öskufoki og síðan höfum við verið í kulda og roki. Í dag vorum við með rokið í fangið allan tímann og lentum í bæði haglél og snjókomu.“

Í dag var hlaupið frá Djúpavogi yfir Öxi til Egilsstaða. Líkt og á Djúpavogi í gær tóku forsvarsmenn sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs á móti hlaupurunum og færðu þeim gjafir. Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands hljóp með hópnum efri hluta Skriðdals og börn úr Ungmennafélaginu Þristi slógust í för með hlaupurunum á kafla.

„Þetta hefur verið mjög gaman þar sem svona vel hefur verið tekið á móti okkur, eins og á Djúpavogi og á Hellu og í Vík hlupu leikskólabörn með okkur,“ segir Signý.

Hugmyndina að hlaupinu má rekja til veikinda Gunnars Hrafns Sveinssonar (Krumma) sem greindist með bráðahvítblæði í janúar 2010. Hlaupararnir eru fjórir, móðir hans, Signý Gunnarsdóttir, faðirinn Sveinn Benedikt Rögnvaldsson og Anna María Rögnvaldsdóttir, systir Sveins og maður hennar, Guðmundur Guðnason.

Hlaupararnir fóru af stað úr Reykjavík þann 2. júní síðastliðinn og hlaupa að meðaltali tæpa 100 kílómetra að dag.  Hver hlaupari hleypur að meðal tali 8-10 km í senn.

Hver dagur er tileinkaður einu barni sem snert hlauparana á einn eða annan hátt. Dagurinn í dag er tileinkaður Birni Elías Þorgeirssyni en hann hitti hlauparana við komuna í Egilsstaði. Björn Elís, er tveggja ára og greindist 18. október 2010 með Wilms æxli í nýra. Hann var mikið veikur fyrstu mánuðina en eftir að nýrað var tekið hjá honum fór allt að fara upp á við. Hann er í stífri lyfjameðferð fram í miðjan júní. Tengsl hans við Austurland eru sterk, móðir hans frá Fáskrúðsfirði en alin upp á Borgarfirði eystri.

Nánari upplýsingar um hlaupið má finna á www.mfbm.is.
 
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar