Hálfdán á Kvískerjum fyrstur til að hljóta Bláklukkuna

halldor_bjornsson_naust.jpgHálfdán Björnsson frá Kvískerjum varð um helgina fyrstur til að hljóta Bláklukkuna, viðurkenningu Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST), sem veitt er fyrir störf í þágu náttúruvísinda og náttúruverndar á Austurlandi. Hálfdán hefur verið einn fremsti fræðimaður Íslands í fugal- og skordýrafræðum þrátt fyrir að hafa aðeins hlotið takmarkaða menntun.

 

Hálfdán á Kvískerjum fæddist þar á bæ 14. mars 1927, yngstur af hópi 9 systkina, sem voru í aldursröð: Flosi, Guðrún eldri, Ari, Guðrún yngri, Páll, Sigurður, Ingimundur, Helgi og Hálfdán.  Foreldrar þeirra voru Björn Pálsson frá Svínafelli og Þrúður Aradóttir frá Fagurhólsmýri í sömu sveit, sem settust að á Kvískerjum um aldamótin 1900. Þessi systkin, nema Páll, ólust upp hjá foreldrum sínum og áttu þar heima alla tíð. Þau eru öll látin, nema Helgi og Hálfdán, sem enn eru á Kvískerjum, búlausir nú.

Þeir Kvískerjabræður hneygðust snemma til grúsks og náttúruskoðunar, og milli þeirra skapaðist verkaskipting. Allir voru þeir sjálflærðir. Ari lifði sig inn í búfjárhald, Helgi varð þúsund þjala smiður, Flosi annaðist jarðfræðina, Sigurður um landfræði og sögu, og Hálfdán sá um líffræðina. Þetta fór ekki framhjá öðrum náttúrufræðingum, innlendum sem erlendum, er fóru smám saman að leita upplýsinga hjá þeim um náttúrufar í Öræfum og nágrenni, og það varð þeim hvatning til frekari rannsókna.

Hálfdán naut venjulegrar barnaskólagöngu, sem þá var líklega farskóli, og var síðan í Héraðsskólanum á Laugarvatni 1948-49. Á tímabili sótti hann vinnu utan heimilis, var m.a. nokkrar vertíðir í Vestmanneyjum.

Hálfdán fór að skoða og skrásetja fugla og nafngreina plöntur á unglingsaldri og safna þeim, og bráðlega bættust skordýr, köngulær og fleiri smádýr við áhugasvið hans. Fyrstu greinar hans birtust í Náttúrufræðingnum 1950, um gróður í Ingólfshöfða og fuglalíf á Laugarvatni og 1951 bættist við grein um gróður og dýralíf í Esjufjöllum. Árið 1955 var hann orðinn svo þekktur sem fuglafræðingur, að Finnur Guðmundsson bauð honum með sér í leiðangur til Meistaravíkur á NA-Grænlandi. Hálfdán ritaði grein um þá ferð í Kvískerjabókina, sem út kom árið 1998.

Hinn frægi sænski skordýrafræðingur, Carl H. Lindroth var við skordýrasöfnun í Öræfum 1962 og hefur eflaust ýtt undir áhuga Hálfdánar á söfnun og greiningu skordýra. Annar skordýrafræðingur, Níels L. Wolff, getur Hálfdánar oft í riti sínu um íslensk fiðrildi 1971 og hefur margar nýjar tegundir eftir honum, segir hann hafa fundið þá fyrstu 1941, þegar hann var 14 ára gamall.

Þessir erlendu sérfræðingar sendu Hálfdáni vandlega nafngreind skordýrasöfn, sem hann gat síðan miðað greiningar sínar við með samanburði. Kom það honum að ómetanlegu gagni, því að hann hefur aldrei lagt sig eftir að læra erlend tungumál og hafði því ekki fullt gagn af erlendum greiningarbókum. Þar gat Flosi bróðir hans að vísu hjálpað til, því hann lærði mörg tungumál með sjálfsnámi heima fyrir.

Að lokum voru það bjöllur og fiðrildi sem Hálfdán sérhæfði sig mest í að nafngreina, en flugur og æðvængjur voru þó ekki utan sjónsviðs hans. Hann fæst ennþá við greiningar á skordýrum og hefur birt nokkrar ritgerðir um þau, en samt miklu færri en ástæða væri til, og má víst rekja það til meðfæddrar hlédrægni. Flestar greinar hans hafa fjallað um fugla og nýjungar á því sviði, enda er haft fyrir satt að enginn Íslendingur hafi séð jafn margar tegundir fugla a.m.k. frá heimili sínu. Síðustu 2-3 áratugi hefur hann unnið með Erling Ólafssyni skordýrafræðingi Náttúrufræðistofnunar. Það mun vera einsdæmi að einn maður hafi jafn víðtæka og staðgóða þekkingu á hinni lifandi náttúru landsins.

Ýmsir hafa haft við orð að heimilið á Kvískerjum hafi verið ígildi háskóla, því að þar var rannsakað, numið og kennt. Helsti kennarinn var náttúran sjálf, sem óvíða er eins fjölbreytt og magnþrungin. Samspil mannlífs og náttúru er þar líka með eindæmum og sagan viðburðarík.

Þessi sérstaða var viðurkennd af stjórnvöldum þegar Umhverfisráðuneytið ákvað, á miðjum níunda átratug síðustu aldar að setja á fót Kvískerjastofu, til að halda áfram verki þeirra Kvískerjabræðra, og auðvelda fræðimönnum að rannsaka náttúru, mannlíf og sögu í Austur-Skaftafellsýslu.

Um sama leyti gekkst Sýslusafn Austur-Skaft. á Höfn fyrir ritun og útgáfu Kvískerjabókar, til heiðurs systkinunum á Kvískerjum, sem kom út 1998, glæsilegt rit með fjölmörgum greinum, m.a. eftir Hálfdán og Sigurð. Hins vegar varð ekki af framkvæmdum við Kvískerjastofu, en Háskólasetrinu í Nýheimum á Höfn mun vera falið það hlutverk sem henni var ætlað.

Ragnar Axelsson ljósmyndari og Þórunn Sigurðardóttir, listfræðingur, voru meðal þeirra mörgu barna sem fengu sumardvöl á Kvískerjum. Hún lýsir viðhorfi Kvískerjafólks til náttúrunnar á þessa leið: "Náttúran, jörðin og dýralífið var þeim á vissan hátt heilagt. Þau gættu þess eins og helgidóms, sem þeim var trúað fyrir. Þeim sem ekki virti reglur náttúrunnar og umgekkst hana með hirðuleysi eða græðgi, var tekið eins og óvita sem þurfti að ala upp."

Kvískerjabræður voru félagar í NAUST frá upphafi og sóttu flesta aðalfundi þess lengi vel. Sigurður var á tímabili í stjórn. Hálfdán lagði sitt lóð á vogarskálina með þekkingu sinni og rannsóknum, en hafði sig ekki í frammi að öðru leyti. Til gamans má geta þess að hann er enginn sérstakur vinur refsins og því síður lúpínunnar.

Þess má geta að NAUST – náttúruverndarsamtök Austurlands eru 40 ára  en þau voru stofnuð í september 1970. Hálfdán var einn af stofnfélögum samtakanna.

Samantekt: Helgi Hallgrímsson og Ásta Þorleifsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.