Hoffellið verður á Eskifirði út vikuna

Viðgerð á Hoffelli, flutningaskipi Samskipa sem kom til Eskifjarðar á sunnudagskvöld með bilaða vél, tekur lengri tíma en áætlað var. Ljóst er að skipið lætur ekki úr höfn í þessari viku.

Samkvæmt tilkynningu frá Samskipum kom í ljós við nánari skoðun að kalla þyrfti eftir varahlutum, sem almennt eru ekki um borð, erlendis frá. Fyrst í stað leit út fyrir að hægt yrði að gera við bilunina, sem varð í ventli, með varahlutum sem til voru um borð.

Skipið varð vélarvana á sunnudag í mynni Reyðarfjarðar, rétt rúmum klukkutíma eftir að það lét þaðan úr höfn. Eftir þriggja tíma stopp tókst að koma vélinni aftur í gang og sigldi skipið fyrir takmörkuðu afli til Eskifjarðar.

Töfin kemur til með að raska tímabundið siglingaáætlun Samskipa en Hoffellið var á leið til Rotterdam. Töluvert af varningi var um borð.

Unnið er að því að koma sendingum sem um borð í skipinu eru til viðtakenda eftir öðrum leiðum. Megnið fer með Skaftafelli, öðru skipi Samskipa, sem væntanlegt er til Reyðarfjarðar á laugardag.

Þá gera Samskip ráðstafanir til þess að bilunin í vél Hoffellsins hafi sem minnst áhrif á vörusendingar á leið til landsins.

Hoffell heldur úr höfn jafnskjótt og viðgerð lýkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.