Horft til þess að sameina heilsugæsluna í Fjarðabyggð þegar göngin opnast

Undirbúningur er hafinn að frekari sameiningu heilsugæslunnar í Fjarðabyggð eftir opnun nýrra Norðfjarðarganga. Aðgengi að Fjórðungssjúkrahúsinu batnar þá um leið og vonast er til að manna störf í heilbrigðisþjónustunni á svæðinu.


Þetta kom fram í máli Emils Sigurjónssonar, setts forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) á málþingi um félagsleg áhrif nýrra Norðfjarðarganga sem haldið var í Egilsbúið fyrir skemmstu.

Heilsugæslan sunnan Oddsskarðs var sameinuð árið 2006 eftir tilkomu Fáskrúðsfjarðarganga og varð að einu vaktsvæði í stað tveggja áður. Emil sagði að horft hefði verið til þess að næsta skref yrði að sameina heilsugæsluna á Norðfirði við heilsugæsluna í Fjarðabyggð þegar ný göng yrðu komin.

„Nú sjáum við fram á að þetta er að verða að veruleika og vonandi verður það til að bæta megi þjónustu heilsugæslu á svæðinu enn frekar en verið hefur.“

Sérstök áhersla hefur verið lögð á byggingu nýrrar heilsugæslu á Reyðarfirði. Vonir eru bundnar við að framkvæmdir við hana hefjist á næsta eða þarnæsta ári. Vonast er til að hún verði til að betur gangi að fastráða lækna við heilsugæsluna en það hefur verið hennar helsta vandamál.

„Innan yfirstjórnar HSA hefur verið haft á orði að þessi bygging sé jafn mikilvæg og nýr Landsspítali sé landinu öllu. Með öflugri heilsugæslustöð á Reyðarfirði skapast vonandi grundvöllur fyrir því að búa þannig að því fagfólki sem vinnur í heilsugæslunni í Fjarðabyggð að það verði mun eftirsóttara en verið hefur að vinna þar.

Þá er helst horft til þess að meiri möguleikar verði að fá unga læna sem eru þá að vinna með fleiri læknum undir sama þaki og fá miklu meiri stuðning frá reyndari kollegum við daglega vinnu sína á móttöku á sjúklingum.“

Með göngum batnar líka aðgengi Austfirðinga að Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Ekki liðkast eingöngu um fyrir sjúkrabíla heldur þjónustuþega sem fara á eigin vegum og starfsfólk sem býr annars staðar en á Norðfirði.

Eins opnast möguleiki á að læknar frá Norðfirði styðji við lækna annars staðar í Fjarðabyggð ef á þarf að halda í heilsugæslunni þar. Þá vonast Emil til þau liðki almennt til við mönnun hjá HSA.

„Göngin stækka þann vinnumarkað sem starfsstöðvar HSA beggja vegna geta sótt í og auka á sama hátt vinnumöguleika fólks, til dæmis maka þeirra sem koma inn á svæðið og hafa fengið starf.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.