Hrósa íbúum fyrir þolinmæði
Austfirðingar hafa sýnt af sér mikla þolinmæði við erfiðar aðstæður vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Ekkert virkt smit er þekkt í fjórðungnum í dag.Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar í dag.
Þar segir að ástæða sé til að hrósa íbúum fyrir þolgæði á undarlegum tímum. Minnt er á að kálið sé ekki sopið þótt í ausuna sé komið en veðrið sé að batna og íbúar hvattir til að njóta þess.
Sjö einstaklingar eru í sóttkví en enginn í einangrun vegna smits. Síðast greindist smit 9. apríl en öllum þeim átta sem smituðust er batnað.