Hús innarlega á Eskifirði rýmd

Ákveðið hefur verið að rýma innsta hluta Eskifjarðar í varúðarskyni vegna snjóflóðahættu úr fjallinu Harðskafa. Snjóflóð er talið hafa orsakað rafmagnsleyfi á Mjóafirði og stórt flóð féll úr Hólmatindi niður í Reyðarfjörð.

Um klukkan hálf tvö í dag var ákveðið að rýma svæði 4 á Eskifirði, byggðina ofan Dalbrautar innan Bleiksár. Fjöldahjálparmiðstöð er í Eskifjarðarskóla en björgunarsveitarfólk aðstoðar fólk við að komast úr húsum sínum.

Hreinn Magni Jónsson, hópstjóri hjá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, segir hættumat Eskifjarðar gera ráð fyrir að á þessu svæði geti fallið snjóflóð við allra verstu aðstæður. Ekki séu þekkt stór flóð á þessu svæði en byggðin þar er frekar ung. Gripið sé til þessa í ljósi snjóalaga, en mikið hefur snjóað síðan í gærkvöldi á Austfjörðum.

Þrjú flóð féllu við Neskaupstað í morgun, þar af eitt á íbúðarhús. Það olli eignatjóni en ekki alvarlegum slysum á fólki. Nú er vitað um þrjú önnur snjóflóð á Austfjörðum.

Rafmagn fór af hluta Mjóafirðar á um klukkan hálf níu í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er rafmagnslaust frá Selhellu, sem segja má að sé ysta húsið í Brekkuþorpi að Hesteyri. Engin heilsárbúseta er á svæðinu, aðeins fjögur sumarhús. Rafmagn er á þorpinu sjálfu og Dalatanga.

Talið er að snjóflóð hafi fallið á línuna, enda á þekktu snjóflóðasvæði. Ófært er til Mjóafjarðar og ekki hættandi á að senda fólk miðað við núverandi aðstæður. Líklegast verður ástandið kannað frá sjó í betra veðri á morgun.

Ástæður þess eru ekki þekktar enda erfitt að komast á svæðið og hreinlega hættulegt því talið er að snjóflóð hafi valdið rafmagnsleysinu.

Í Reyðarfirði féll snjóflóð úr Hólmatindi og yfir veginn utan við álverið. Í Fannardal sást líka snjóflóð en það náði ekki niður á veg.

Húsin sem voru rýmd:

Bogahlíð 2,4,6,12 og 14
Brekkubarð 1-3
Dalbarð 2-4,6,8,11,13 og 15
Eskifjörður (nafn húss)
Fífubarð 1-11

Snjóflóð féll úr Harðskafa árið 2021. Mynd: Valbjörn J. Þorláksson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.