„Hver ætlar að sjá um að grafa upp draslið og henda því?“
Seyðfirðingar fylltu bíósalinn í Herðubreið og sóttu að stjórnendum RARIK út af lokun fjarvarmaveitu í bæjarfélaginu á íbúafundi um málið í gær. RARIK telur ekki forsvaranlegt að endurnýja dreifikerfi veitunnar sem er að verða ónýtt.RARIK tilkynnti í sumar að veitunni yrði lokað fyrir lok árs 2019. Fyrirtækið býður bæjarbúum styrk til að koma upp varmadælum eða hitatúbum. Frummælendur á fundinum í gær frá RARIK og Orkustofnun töluðu fyrir varmadælunum þar sem þær eiga að spara orku.
Af samkeppnissjónarmiðum telja stjórnendur RARIK sér ekki heimilt að fara lengra inn á heimili en sem nemur mæli fyrirtækisins. Þar með er því velt yfir á íbúa að velja sér sjálfir lausnir kaupa þær og koma þeim upp.
Sölumenn varmadælna voru með kynningar í hátíðarsal Herðubreiðar á sama tíma. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, hvatti Seyðfirðinga til að sameinast um innkaup á dælum og uppsetningu til að ná sem hagstæðustu verðum.
Rekstrarforsendur brostnar
Fjarvarmaveitan hefur verið rekin frá árinu 1981. Hún var upphaflega sett upp af RARIK og Seyðisfirði þannig að RARIK átti hitarann en kaupstaðurinn dreifikerfið. Árið 1992 keypti RARIK svo dreifikerfið.
Dreifikerfið er orðið gamalt og líkur á að bilunum fjölgi á næstu árum. Þá eru rekstrarforsendur þess hæpnar vegna hækkunar á verði ótryggrar orku sem það keyrir á. Áætlað er að rúman hálfan milljarð kosti að skipta út dreifikerfinu. Af þessum orsökum telur RARIK rétt að hætta rekstri þess fyrir árslok 2019.
Það hefur hins vegar í för með sér mikið rask og nokkur fjárútlát fyrir íbúa Seyðisfjarðar sem fjölmenntu á fundinn í gær til að láta gremju sína í ljósi.
Kerfinu ekki haldið við?
Fundargestir gagnrýndu RARIK fyrir að hafa ekki sinnt viðhaldi á dreifikerfinu. „Hvenær var tekin ákvörðun um að láta það grotna niður?“ spurði Ólafur Hr. Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóri.
„Það var ljóst árið 1992 að endurnýjunar væri þörf en það hefur ekki verið lögð króna í það. Það hefur verið gert við göt með stubbum. Hvað er RARIK búið að græða á kerfinu?“ sagði Jóhann Hansson.
„Rarik hefur ekki grætt mikið á þessari veitu. Það var deilt um það hvort skynsamlegt væri að fara af stað í byrjun,“ svaraði Tryggvi.
Hann viðurkenndi að viðhaldið hefði aðallega falist í að „eltast við bilanir.“ Erfitt sé að meta ástand kerfisins nema grafa niður á það. Vissulega hefði dreifikerfið verið í betra ástandi ef lagt hefði verið í endurnýjun undanfarin ár en þá hefði þurft að hækka verðið til neytenda því rekstur veitunnar hefur varla staðið undir sér.
Við það er hætt að stórnotendur myndu leita annað þannig kostnaður á hvern minni notenda myndi hækka enn frekar. Áætlað er að endurnýjun dreifikerfisins myndi kosta 500-600 milljónir króna.
RARIK ber að ganga frá kerfinu
Nokkuð var sótt að RARIK fyrir að leggja ekki fram tölur um heildarkostnað við framkvæmdina. „Hver ætlar að sjá um að grafa upp draslið og henda því,“ spurði Cecil Haraldsson. Þó nokkrir fundargestir fylgdu eftir með spurningum um hvað það myndi kosta en við því voru engin svör.
„Ef menn vilja að kerfið verði grafið upp þá gerum við það. Okkur ber skylda til þess. Það þýðir hins vegar að við þurfum að rótast í öllum bænum innan um aðrar lagnir. Við eigum eftir að ræða þetta við bæinn, það geta verið fleiri lausnir svo sem að bærinn taki yfir brunnana og blása sandi í rörin til að loka þeim frekar en rífa upp bæinn,“ sagði Tryggvi.
Vatnshitakerfi til staðar ef göngin koma
Íbúar spurðu einnig út í hvernig málum yrði háttað ef heitt vatn yrði leitt í gegnum jarðgöng úr Urriðavatni, hvort þá stæði til að láta Seyðfirðinga borga fyrir hitaveitu í fjórða sinn og hvort RARIK hefði ekki trú á að af göngum yrði.
Tryggvi hafnaði því að fyrirtækið hefði ekki trú á göngum. Þvert á móti hefði það trú á þeim og hvetti því íbúa til að hafa vatnshitakerfi í húsum sínum. Ekki sé hins vegar fyrirsjáanlegt að hitaveitan komi á næstum 3-5 árum.
Þá sé trúlega þörf á að setja upp dreifikerfi sem hannað sé fyrir þann þrýsting og hita sem verður á vatninu. Tryggvi sagði ekki víst að kerfi yrði á herðum RARIK en þó ekki útilokað. „Annað hvort sér Hitaveita Egilsstaða og Fella um þetta alfarið eða við rekum dreifikerfið og kaupum vatnið. Það ræðst af samningum sem við erum ekki komin í.“
Þá er hins vegar fyrirsjáanlegt að það dreifikerfi sem nú er verið að leggja af verði fjarlægt. „Við tökum þátt í því,“ sagði Tryggvi.