Hverjum þykir sinn fugl fagur í vegamálum
Borgfirðingar telja Borgarfjarðarveg mikilvægastan, Djúpavogsbúar segja það Öxi meðan Breiðdælingar tilnefna Suðurfjarðarveg.
Mikill munur mælist á afstöðu íbúa Austurlands til samgönguúrbóta eftir því hvar fólk er með búsetu eins og ofangreind dæmi bera vott um. Þetta meðal niðurstaðna úr rannsóknum Austurbrúar á viðhorfum íbúa fjórðungsins til samgönguúrbóta til framtíðar en rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar veitti stofnunni sérstakan styrk 2020 til að meta viðhorf íbúanna til þeirra mála. Alls tóku 544 þátt í rannsókninni.
Þátttakendur reyndust almennt sammála um að komandi Fjarðarheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Héraðs væri ein allra mikilvægasta samgöngubót á Austurlandi og einnig voru jákvæð viðhorf til vegaúrbóta á Borgarfjarðarvegi sem lauk síðasta haustið sem og nýrri brú yfir Lagarfljótið.
Niðurstöðurnar munu nýtast í stefnumótun, áætlanagerð og hugsanlega styðja við undirbúning samgönguúrbóta til framtíðar á Austurlandi sem eðli máls samkvæmt hafa töluverð áhrif á byggðaþróun á hverjum stað fyrir sig enda traustar samgöngur megin forsenda sterks atvinnu- og mannlífs eins og segir í skýrslunni.