Hyllir undir bifreiðaskoðun á ný á Vopnafirði
Framkvæmdastjóri Frumherja segir að innan skamms verði byrjað á ný að skoða bifreiðar á vegum fyrirtækisins á Vopnafirði. Ekkert hefur verið skoðað þar síðan í febrúar.Engin sérstök skoðunarstöð er í bænum en undanfarin ár hefur skoðunarmaður komið reglulega frá Húsavík og skoðað bifreiðar á verkstæði í bænum.
Síðast var skoðað á Vopnafirði í febrúar en síðan ekki meir vegna Covid-19 faraldursins. Á heimasíðu Frumherja segir að þrjár stöðvar, á Vopnafirði, Þórshöfn og Kópaskeri, séu lokaðar um óákveðinn tíma vegna aðstæðna í samfélaginu og er þar vísað til smithættu.
En síðan hafa aðstæður breyst en enn hefur ekki verið hægt að fá bíla skoðaða á Vopnafirði, bíleigendum þar til lítillar gleði.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Orri Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja, rétt að skoðunarkerfi fyrirtækisins hafi hikstað í vetur og vor. Eins og staðan sé nú sé hins vegar stefnt á að skoða á Vopnafirði 22. – 24. júní.