Í forgangi að halda leiðum á kjörstað opnum
Vegagerðin leggur áherslu á að halda leiðum í byggð opnum til að freista þess að íbúar komist á kjörstað á morgun. Öll tiltæk moksturstæki eru tilbúin.„Áherslan verður á halda öllu í byggð opnu þannig að fólk komist á kjörstað. Stofn- og tengivegir í byggð ganga fyrir,“ segir Loftur Þór Jónsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi.
Í grófum dráttum bera sveitarfélögin ábyrgð á götum í þéttbýli en Vegagerðin á aðalleiðum og vegum í dreifbýli. Þó er það svo að sveitarfélögin hreinsa heimreiðar. Austfirsku sveitarfélögin hafa öll gefið það út að þau muni reyna að halda sínum leiðum opnum eins og kostur er á morgun. Íbúum er ráðlagt að fylgjast með tilkynningum á heimasíðum, samfélagsmiðlum og öðrum fjölmiðlum.
Loftur segir að bæði hjá Vegagerð og sveitarfélögum sé búið að gera þau moksturstæki sem tiltæk eru klár fyrir morgundaginn. „Við vitum ekki hversu mikið eða erfitt þetta verður vegna veðurs á morgun. Það eru líkur á að skilyrði til fjalla verði erfið og ef það er líka erfitt í byggð þá verða fjallvegirnir að mæta afgangi.“
Eftir að kjörfundi lýkur þarf að koma kjörgögnum á áfangastað, helst alla leið norður á Akureyri þar sem talið verður. Loftur segir Vegagerðina tilbúna með tæki til að reyna að koma kjörgögnum norður en yfirkjörstjórn óskar eftir aðstoð við það annað kvöld.
Mynd: Unnar Erlingsson