Íbúafundir um sameiningu sveitarfélaga í næsta mánuði

Formaður samstarfsnefndar um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi segir að markmið sameiningar að grunnþjónusta við íbúa verði efld. Von er á að staðan í viðræðunum verði kynnt strax í næsta mánuði.

„Á þessum fundum verður meðal annars rætt um stjórnsýsluna, ýmsa þjónustu, samgöngumál og fleira. Þetta eru mikilvægir fundir fyrir samstarfsnefndina, sem vinnur síðan tillögur sem lagðar verða fram í haust,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður nefndarinnar í viðtali við þáttinn Landsbyggðir á N4 sem sent verður út í kvöld.

Stefnt er að því að kjósa um sameiningu Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar fyrir árslok. Málefnahópar eru teknir til starfa og von er á að þeir skili tillögum í byrjun mars. Íbúafundirnir verði haldnir í kjölfarið.

„Okkar áætlanir miðast að kosið verði um sameiningu fyrir lok ársins. Það er afskaplega mikilvægt að íbúafundirnir takist vel og sem flest sjónarmið komi fram og ég er viss um íbúarnir taka þátt í þessu verkefni. Á þessum fundum verður stefnan í raun og veru mörkuð.

Unnið er að verkefninu undir vinnuheitinu „Sveitarfélagið Austurland,“ með það að markmiði að grunnþjónusta við íbúa sameinaðs sveitarfélags verði efld frá því sem nú er, meðal annars með þróun nútíma stjórnunarhátta og rafrænnar stjórnsýslu,“ segir Björn.

Viðtalið við hann verður frumsýnt á N4 í kvöld klukkan 20:30 og verður svo aðgengilegt hérna á Austurfrétt á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar