Íbúum á rýmingarsvæðinu á Seyðisfirði sagt að tæma hús sín

Íbúum þeirra íbúðahúsa sem eru á núverandi rýmingarsvæði á Seyðisfirði hefur verið sagt að tæma hús sín sem fyrst og ekki reikna með að geta flutt í þau aftur.

„Ég er í sjokki yfir þessu en mér var tjáð að Ofanflóðasjóður myndi kaupa hús mitt til að rífa það,“ segir einn íbúana í samtali við Austurfrétt. „Á móti fengi ég styrk til að borga leigu í tvo mánuði meðan ég fyndi aðrar lausnir.“

Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings segir að nokkuð ljóst sé að um misskilning er að ræða þar sem engar ákvarðanir liggi fyrir um framtíð þessara húsa. Málið verði til umræðu á aukafundi sveitarstjórnar sem haldinn verður í vikunni.

„Hvenær niðurstaða sem þessi gæti mögulega legið fyrir treysti ég mér ekki til að segja til um á þessari stundu en unnið verður áfram að mati á aðstæðum með sérfræðingum auk þess að fulltrúar náttúruhamfaratrygginga verða við vinnu á svæðinu næstu daga og von er á fulltrúum Ofanflóðasjóðs fljótlega til að fara yfir stöðu mála með fulltrúum sveitarfélagsins og íbúum Seyðisfjarðar,“ segir Björn.

Austurfrétt hafði samband við stjórnarmann í Ofanflóðasjóði og framkvæmdastjóra sjóðsins. Fram kom í máli þeirra beggja að sjóðurinn hefði engar ákvarðanir tekið í þessu máli enn.

„Það getur vel verið að þetta verði endanlega niðurstaðan en vil taka fram að ekki er búið að ljúka áhættumati á svæðinu,“ segir Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Ofanlánasjóðs. „Við höfum heldur ekki lokið frummati á því hvort það er hagkvæmara fyrir sjóðinn að kaupa húsin eða byggja varnargarð fyrir ofan þau.“

Hafsteinn segir að það að rífa húsin væri alger þrautalending í málinu og að allir aðrir kostir yrðu skoðaðir fyrst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.