Íbúum í Neskaupstað ráðlagt að sjóða neysluvatn: Úrhelli á föstudag talið rót mengunar

Íbúum í Neskaupstað var í morgun ráðlagt að sjóða neysluvatn eftir að fjöldi jarðvegsgerla reyndist yfir mörkum. Veitustjóri telur líklegt að vatnsbúskapurinn hafi raskast í úrhellisrigningum á föstudag.

„Það rigndi yfir 100 mm eftir hádegið,“ segir Þorsteinn Sigurjónsson, sviðsstjóri veitusviðs hjá Fjarðabyggð.

Í tilkynningu sem send var út í morgun voru íbúar í Neskaupstað beðnir um að sjóða vatnið að minnsta kosti fyrir viðkvæma einstaklinga og ung börn. Tekið er fram að ekki sé um að ræða saurgerla.

Leifur Þorkelsson hjá Heilbrigðiseftirliti Austurlands sagði í samtali við Austurfrétt að mengunin virðist af svipuðum toga og kom upp í neysluvatni Reykvíkinga á mánudagskvöld.

Tala jarðvegsgerla var há í sýni sem tekið var við reglubundið eftirlit síðasta miðvikudag. Aftur var tekið sýni á mánudag og reyndist fjöldi gerlanna 117/ml en viðmiðunarmörkin eru 100/ml.

Leifur segir þetta vera fyrstu niðurstöður frá rannsóknarstofu. Í ljósi þeirra hafi tilkynning um varúð verið send út en ekki eigi að vera nein hætta á ferðum.

Fulltrúr HAUST og Fjarðabyggðar funda á eftir til að meta stöðuna og reyna að rekja upptök mengunarinnar. Í byrjun síðustu viku kom upp bilun í vatnsveitunni þannig að forðatankur skemmdist. Aðspurður sagðist Þorsteinn ekki telja samhengi milli hennar og mengunarinnar, vatnsveðrið væri líklegri ástæða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.