Iðnaður er stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar
Í nýrri greiningu sem Samtök iðnaðarins vann kemur fram að iðnaður er stærsta útflutningsgrein hagkerfisins. Útflutningstekjur álfyrirtækjanna þriggja er um helmingur iðnaðarútflutningsins.Útflutningstekjur iðnaðarframleiðslu námu 698 milljörðum króna á síðasta ári, sem er 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Í öðru sæti var ferðaþjónusta en útflutningstekjur vegna hennar námu 598 milljörðum, eða 32% af heildinni. Sjávarútvegur kemur í öðru sæti með 352 milljarða króna útflutningstekjur sem gerir 19%.
Af þessu námu tekjur af áli og kísiljárni 370 milljörðum. Þær drógust þó saman um hátt í 100 milljónir. Ástæða samdráttarins er verðlækkun og skerðing raforku. Sá samdráttur hefur haldið áfram í takt við skerðingu raforku á þessu ári.
Útflutningstekjur álfyrirtækjanna þriggja, RioTinto, Norðurál og Alcoa, námu 324 milljörðum króna á síðasta ári sem er ríflega 17% af heildarútflutningsverðmæti þjóðarbúsins.
„Með vexti hugverkaiðnaðar á síðustu árum hefur hluti þjónustu í heildarútflutningi iðnaðar farið vaxandi. Nam hluti þjónustu í útflutningi iðnaðar 28% árið 2023 samanborið við 14% árið 2013. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar 86 milljörðum króna sem er 7% aukning frá sama tíma í fyrra.
Samtök iðnaðarins áætla að tekjurnar verði yfir 300 milljarðar á þessu ári. Samdráttur í útflutningstekjum áls og kísiljárns olli því að heildarútflutningstekjur iðnaðar drógust saman á milli áranna 2022 og 2023 um 75 milljarða króna eða tæplega 10%,“ segir í skýrslunni.