Ingibjörg og Jens Garðar njóta mests trausts oddvitanna

Ingibjörg Ólöf Isaksen, Framsóknarflokki og Jens Garðar Helgason, Sjálfstæðisflokki, njóta mests trausts oddvita í Norðausturkjördæmi, miðað við niðurstöður kosningakönnunar Austurfréttar og Austurgluggans.

Mælikvarðarnir voru tveir og gáfu mismunandi niðurstöður.

Annars vegar var hægt var að gefa oddvitum einkunn frá 1 upp í 5, þar sem einn er mjög lítið traust og 5 mjög mikið. Tveir oddvitar fá yfir 3 í einkunn, annars vegar Ingibjörg með 3,14 og hins vegar Jens Garðar Helgason, með 3,03. Austfirðingar treysta síst Gunnari Viðari Þorsteinssyni úr Lýðræðisflokknum, hann fær 1,86 í einkunn.

Það þarf ekki að koma á óvart. Kjósendur velja yfirleitt oddvita þess framboðs sem þeir aðhyllast og Lýðræðisflokkurinn mældist með ekkert fylgi í könnuninni.

Hver hrifinn af sínum fugli


Þó er rétt að staldra við þessa kenningu þar sem Ingibjörg kemur best út þótt Framsóknarflokkurinn mælist aðeins með fjórða mesta fylgið. Hún er í hópi nokkurra oddvita sem virðast sigla á milli skers og báru á meðal kjósenda annarra flokka. Ingvar Þóroddsson hjá Viðreisn, Þorsteinn Bergsson hjá Sósíalistum og Sindri Geir Óskarsson hjá VG eru einnig í þessum hópi þótt þeim lukkist það ekki jafn vel.

Almennt er það svo að kjósendur hægri flokkanna vantreysta leiðtogum vinstri flokkanna og öfugt. Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar eru líka hrifnastir af eigin frambjóðendum og skiptast á að setja oddvita hvors annars í annað sætið. Kjósendur Framsóknar setja Jens og Sindra á eftir Ingibjörgu en bera mikið vantraust til Sigmundar Davíðs, sem er ekki nýtt. Eftirtektarvert er að kjósendur Viðreisnar hafa einnig lítið álit á Sigmundi.

Þetta skýrir að sama skapi hvers vegna Jens Garðar og Sigmundur koma best út þegar horft er til hins mælikvarðans, það er hlutfalls þeirra sem segjast treysta oddvita vel eða mjög vel en samkvæmt sömu reiknireglu njóta þeir líka talsverðs vantrausts. 43% þeirra sem svöruðu könnuninni segjast treysta Jens Garðari mikið eða mjög mikið.

Munur er sem fyrr á milli byggðarlaga. Kjósendur í Múlaþingi og Fljótsdal treysta Ingibjörgu best, en þar á eftir koma Ingvar og Þorsteinn. Í Fjarðabyggð nýtur Jens Garðar langmests traust, en Ingibjörg kemur næst á eftir honum.



Nánar er fjallað um niðurstöður könnunarinnar í kosningablaði Austurgluggans sem kom út í síðustu viku. Það má lesa hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar