Ísfélag Vestmannaeyja kaupir 16% í Fiskeldi Austfjarða
Ísfélag Vestmannaeyja hefur eignast rúmlega 16% hlut í Fiskeldi Austfjarða. Í lok síðustu viku jók Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri, við hlut sinn.Þetta kemur fram í tilkynningum til norsku kauphallarinnar. Þar er fyrirtækið, eða Ice Fish Farm, skráð á markað. Kaup Ísfélagsins koma í kjölfar þess að í nóvember ákvað Måsøval Eiendom, aðaleigandi Fiskeldis Austfjarða, að leita eftir nýjum meðeiganda að eldinu.
Viðskiptin fara þannig fram að eignarhlutur Måsøval Eiendom, sem er 56%, verður færður inn í nýtt félag sem kallast Austur Holding AS, eða einfaldlega Austur. Ísfélagið kaupir síðan 29,3% hlut í því félagi. Gengið á viðskiptunum er 43 krónur norskar á hlut eða um 8,7 milljarðar íslenskra króna.
Það gengi er töluvert hærra er töluvert hærra en verið hefur á bréfunum undanfarna daga, í gær var það 27 krónur norskar þegar viðskiptum lauk. Algengt verð það sem af er degi, eftir að tilkynnt var um viðskiptin, hefur verið 34 krónur norskar.
Fyrsta skref Ísfélags Vestmannaeyja í fiskeldi
Í tilkynningu er haft eftir Lars Måsøval, stjórnarformanni Måsøval Eiendom að Ísfélagið sér farsælt fjölskyldufyrirtæki með langa sögu og rætur í íslenskum sjávarútvegi. Það líkist því Måsøval Eiendom og því eigi fyrirtækin að geta náð vel saman. Þá styrki og breikki tilkoma Ísfélagsins hluthafahóp Fiskeldis Austfjarða sem væntanlega leggi grunninn að farsælli framtíð eldisins á Austfjörðum.
Einar Sigurðsson, varastjórnarformaður Ísfélagsins, segir þar að félagið hafi fylgst með vexti íslensks laxeldis á undanförnum árum og trúi að það haldi áfram að styrkjast með tilheyrandi atvinnu- og verðmætasköpun meðfram ströndum Íslands.
Ísfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1901 og er sagt elsta fyrirtæki landsins sem enn sé í rekstri. Eftir samruna við Ramma hf. sé það með 8% af heildarkvóta landsins og geri út 11 skip auk þess að reka sex starfsstöðvar í landi. Aðaleigandi þess er Guðbjörg Matthíasdóttir. Måsøval Eiendom er hins vegar stofnað utan um norskt fiskeldi á áttuna áratugnum.
Samkvæmt annarri tilkynningu úr norsku kauphöllinni frá því á föstudag jók Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri Fiskeldi Austfjarða, við hlut sinn í félaginu í gegnum félag sitt Irminger Holding. Irminger keypti 13.205 hluti á 27,15 krónur norskar eða 4,8 milljónir íslenskar í heildina. Eftir viðskiptin á Irminger þó innan við 0,001% í félaginu. Verðmætin hafa þó vaxið nokkuð á stuttum tíma eftir tíðindin í morgun.