Ítreka takmarkanir á notkun íþróttasvæða
Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hvetur íbúa í fjórðungnum til að virða tilmæli um takmörkun á íþróttavöllum sem í gildi eru til að hindra útbreiðslu Covid-19 veirunnar.Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórninni í dag. Fram til 4. maí eru í gildi takmarkanir við notkun á spark- og íþróttavöllum, fjöldatakmarkanir sem miðast við 20 manns, nálægðarmörk upp á tvo metra og svo framvegis.
Tíu dagar eru þar til slakað verður á takmörkunum, en samkomur verða þá leyfðar fyrir allt að 50 manns auk þess sem íþróttaæfingar verða leyfðar af nýju ásamt fleiru.
Aðgerðastjórnin hvetur íbúa til að kynna sér reglurnar sem taka gildi 4. maí og framfylgja þeim, líkt og þeir hafa lagt sig fram um að gera við núverandi reglur. „Þannig munum við komast í gegnum þetta saman án bakslags og tryggja á sama tíma að nýjar reglur frá 4. maí nái fram að ganga,“ segir í tilkynningu.
Covid-19 smit greindist síðast á Austurlandi þann 9. apríl. Af þeim átta sem fengið hafa veikina í fjórðungnum er aðeins einn einstaklingur enn í einangrun en sjö hafa náð bata.
Sjö eru í sóttkví. Þeim hefur fækkað töluvert undanfarna daga, sem skýrist af því að einstaklingar sem verið hafa erlendis hafa lokið tíma sínum í sóttkví.