Jákvæð viðbrögð við óskum um bætta vetrarþjónustu

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs segir Vegagerðina hafa tekið vel í óskir sveitarfélagsins um að vetrarþjónusta í dreifbýli þess verði efld með að flýta mokstri á morgnana.

„Við höfum lagt áherslu á að mokað sé fyrr í dreifbýlinu en oft hefur verið þannig að það nýtist íbúum til að komast til vinnu og koma börnum í skóla. Það hefur ekki alltaf verið þannig,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

Snjómokstur og hálkuvarnir voru aðalefni fundar bæjarráðs með fulltrúum Vegagerðarinnar á Austurlandi á mánudagsmorgun. Slíkir fundir eru haldnir 1-2 á ári og er þá farið yfir helstu áherslumál í vegasamgöngum í sveitarfélaginu.

Björn segir að engin skýr svör hafi borist við óskum um breyttan mokstur en tekið jákvætt í óskirnar.

Þá var fundurinn nýttur til að koma á framfæri athugasemdum sem borist hafa frá íbúum um hálkuvarnir sem víða þykja ónægar í dreifbýlinu.

„Við gerum okkur grein fyrir að Vegagerðin hefur ekki úr of miklum fjármunum að spila en við leggjum áherslu á að þetta sé tekið upp þeirra megin og við leggjumst á árarnar með um að bætt verði við fjármunum til viðhalds og reksturs vega.

Við getum ekki leyft okkur að hætta snjómokstri þótt sá liður sé kominn fram úr fjárhagsáætlun. Við erum ekki sátt við það en höldum þó áfram. Ríkið verður að bregðast við með sama hætti,“ segir Björn.

Í síðustu viku lagði meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis til að byggingu nýrrar Lagarfljótsbrúar yrði seinkað á samgönguáætlun og yrði á dagskrá 2029-2033 frekar en 2024-2028. Það mál var þó ekki tekið upp sérstaklega á fundinum á mánudag, það verður rætt á öðrum vettvangi.

„Okkar áhersla á að ef ekki á að byggja nýja brú þá verði sú sem er í dag í lagi. Burðargeta hennar er fulltakmörkuð fyrir þá umferð sem er um hana í dag,“ segir Björn, aðspurður um málið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.