Jarðhitaleit í Fjarðabyggð gefur tilefni til nánari rannsókna

Jarðhitaleit á Norðfirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði gefur fyrirheit til frekari rannsókna. Þar virðast finnast álíka heit svæði og á Eskifirði en þar fannst vatnsæð sem hefur séð bænum fyrir heitu vatni í tæp tíu ár.


Þetta kemur fram í áfangaskýrslu jarðhitaleitar í Fjarðabyggð árin 2012-2015 sem Ómar Bjarki Smárason hjá Stapa ehf. – jarðfræðistofu hefur tekið saman en fjallað var um skýrsluna í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Á tímabilinu hafa verið boraðar sjö nýjar holur og fjórar eldri dýpkaðar. Árið 2012 var borað á Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði en í ár á Stöðvarfirði og Norðfirði við skólahúsnæði á stöðunum tveimur.

Svæði í sunnanverðum Mjóafirði eru meðal þeirra sem vakið hafa athygli. Á móts við Brekkuþorp eru örnefni eins og Reykir og Reykjadalur. Mögulegt er að sá jarðhitasvæði þar leiði austur í Norðfjörð, til dæmis í Hoflaugartind.

Erfitt hefur hins vegar reynst að koma tækjum á þessa staði til frekari rannsókna en til að kanna svæðið frekar þarf að bora í Reykjadal og mögulega Gilsárdal í Norðfirði. Rannsóknir á heitum svæðum í Norðfirði eru annars skammt á veg komnar.

Í Stöðvarfirði mældist 98°C/km hitastigull í holu sem boruð var í lok nóvember. Hitastigull er mælikvarði á hitaaukningu eftir fjarlægð og er hitastigull jaðar hitaaukning með dýpi frá yfirburði. Þar er nokkur vatnsgegnd í bergi. Því kann að vera ástæða til nánari rannsókna, sýnatöku og borana ef efnagreiningar benda til jarðhita.

Bæði á Stöðvarfirði og Norðfirði stendur til að koma upp varmadælum til að hita skólahúsnæði.

Vatnskerfi sem gætu nýst til húshitunar?

Boranir við Sléttu í Reyðarfirði benda til þess að miðja jarðhitakerfisins sé undir fjallinu Skessu. Frekari leit ætti því að beinast að því svæði.

Hitastigull í heitustu holunum er um 130-140°C/km, sjálfrennsli á 45°C heitu vatni úr borholum og efnahitinn bendir til 60°C heits vatnskerfis. Í skýrslunni segir að það sé svipað og fékkst úr rannsóknarholum á Eskifirði.

Í Fáskrúðsfirði er svæði við Gilsá tilbúið fyrir staðsetningu tilraunavinnsluholu. Upprennsli úr rannsóknarholu þar var komið í 60°C. Í firðinum hefur svæðið í kringum Dali einnig verið skoðað. Þar er talið líklegt að til staðar sé 60°C heitt vatnskerfi sem nýst geti til húshitunar eða annarrar starfsemi sem krefjist jarðhita.

Örnefni í Mjóafirði hafa vakið athygli jarðfræðinga. Mynd: GG

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar