Jens Garðar nýr framkvæmdastjóri Laxa
Eskfirðingurinn Jens Garðar Helgason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Laxa fiskeldi, sem meðal annars halda úti eldi í Reyðarfirði. Hann segir spennandi að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem fylgi auknu fiskeldi.Tilkynnt var um ráðninguna í dag en Jens Garðar hefur störf á föstudag, 1. febrúar.
„Starfið leggst gríðarlega vel í mig. Laxar Fiskeldi eru í öflugri uppbyggingu hér á Austurlandi og fiskeldi er spennandi atvinnugrein með mikla vaxtarmöguleika hér fyrir austan.
Ég tel að fiskeldi og þjónustustarfsemi tengt því geti orðið stór vaxtarbroddur fyrir atvinnulíf og byggðarþróun hér á svæðinu. Það er spennandi að fá að taka þátt í þeirri uppbyggingu,“ segir Jens Garðar.
Jens Garðar var framkvæmdastjóri útflutningsfyrirtækisins Fiskimiða ehf. á árunum 2002 til 2018. Þá hefur hann verið formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi frá stofnun þeirra árið 2014, en fiskeldisfyrirtækin gengu nýverið í samtökin.
Jens Garðar stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands á árunum 1997 – 2000 og stundar MBA námi í Seafood Management við Norwegian School of Economics.
Laxar fiskeldi er með þrjár starfsstöðvar á Suðurlandi, sjókvíaeldi í Reyðafirði með aðstöðu á Eskifirði og höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Jens Garðar býr á Eskifirði og sagðist í samtali við Austurfrétt því reikna með að vera mikið á ferðinni, sem sé reyndar ekki nýtt fyrir honum.
Starfsemi og umsvif Laxa fiskeldis hafa aukist hratt á síðustu misserum og er fyrirtækið nú að ala fjórar kynslóðir laxa í starfstöðvum sínum. Starfsmenn Laxa fiskeldis á Íslandi eru 35.
Jens Garðar hann á þrjú börn og sambýliskona hans er Kristín Lilja Eyglóardóttir.