Jón Björn: Orkugjafar framtíðarinnar verða fjölbreyttir
Fjölbreytni orkugjafa samgöngutækja eykst í framtíðinni. Þetta er mat Jóns Björns Skúlasonar, verkefnisstjóra hjá Grænu orkunni. Um alla Evrópu prófa menn sig áfram með mismunandi hvata fyrir bifreiðaeigendur til að skipta um orkugjafa.
Þetta kom fram í máli Jóns Björns á málþingi um vistvænar samgöngur sem haldið var á Reyðarfirði fyrir skemmstu.
„Það verður enginn einn orkugjafi sem skiptir máli. Þetta verður háð auðlindum á hverju svæði fyrir sig,“ sagði Jón.
Hann kynnti ýmsar ívilnanir sem íslensk yfirvöld hafa þegar ráðist í til að hvetja bifreiðaeigendur til að nota bíla sem menga minna. Þar má nefna lægri skatta á bifreiðar sem losa minni koltvísýring út í andrúmsloftið. Slíkt hafi þegar breytt innkaupastefnu bílaleiga.
Jón benti einnig á bifreiðaeigendur þurfi ekki að skipta um bíla. Þeir geti gripið strax til aðgerða á þeim bílum sem þeir eigi. Biðlistar séu hjá bifreiðaverkstæðum eftir metanbúnaði og vélahitarar með vetni leiði til 16% eldsneytissparnaðar.
Ýmsar tilraunir eru einnig í gangi í Evrópu. „Vistvænar samgöngur eru forgangsverkefni hjá Evrópusambandinu og það er hægt að fá mikið fjármagn í slík verkefni þaðan. Á Arlanda-flugvelli í Svíþjóð fá vistvænir leigubílar forgang og miðborg Lundúna er búið að loka fyrir bensínbílum nema gegn gjaldi. Það hefur gengið vel og fleiri borgir ætla að fylgja í kjölfarið. Sambærilegt bann er þegar gengið í gildi í Amsterdam.“