
Jódís gefur kost á sér sem varaformaður VG
Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs úr Norðausturkjördæmi, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem varaformaður flokksins. Kosið verður á landsfundi eftir rúma viku.Í tilkynningu sem Jódís sendi frá sér á Facebook í gær segist hún upphaflega hafa gengið til liðs við flokkinn í tengslum við baráttuna gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Hún var kjörin í fyrstu sveitarstjórn Múlaþings haustið 2020.
Hún segist telja að velgengni framboðsins þá megi þakka því að það hafi talað máli íbúa gegn hagsmunaöflum sem setji gróða sinn framar náttúru og mannlífi.
Jódís skipaði síðan annað sætið á lista VG fyrir Alþingiskosningarnar 2021. Hún komst á þing eftir spennandi kosninganótt. Að þeim loknum framlengdi VG ríkisstjórnarsamstarf sitt við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.
„Ég tel að VG hafi náð mörgum góðum málum í gegnum þetta ríkisstjórnarsamstarf en ég tel líka að við höfum gert of margar og afdrifaríkar málamiðlanir þar sem grunnstoðir VG hafa beðið hnekki. Kjósendur VG virðast sömu skoðunar en fylgi hreyfingarinnar mælist nú sögulega lágt,“ segir hún um stjórnarsamstarfið og stöðu VG. Af áherslumálum nefnir hún sérstaklega friðarmál, náttúruvernd og kvenfrelsi.
Kosið verður á landsfundi VG sem fram fer í Reykjavík 4. – 6. október næstkomandi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður og áður varaformaður hefur einnig boðið sig fram til varaformanns. Enginn hefur enn boðið sig fram í formannsembættið sem er laust eftir að Katrín Jakobsdóttir lét af því í vor þegar hún fór í forsetaframboð. Guðmundur Ingi hefur hins vegar lýst yfir stuðningi við Svandísi Svavarsdóttur, þingmann Reykvíkinga.