Jóhanna og Jóhann til Menningarstofu Fjarðabyggðar

Tveir nýir stafsmenn koma á næstunni til starfa hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar. Báðir eru úr hópi umsækjenda um starf verkefnastjóra hjá stofunni sem auglýst var í byrjun árs.

Jóhann Ágúst Jóhannsson mun taka við starfi sem forstöðumaður af Ara Allanssyni, sem óskað hefur eftir að láta af störfum þann 1. september næst komandi.

Jóhann hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi en hann var áður framkvæmdastjóri tónlistarsjóðsins Kraums, ráðgjafi hljómsveita eins og Amiinu, Brain Police og Bang Gang auk þess að skipuleggja hátíðina Pönk á Patró.

Jóhann er í grunninn viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands en hefur síðar lokið viðbótarnámi í viðburða- og menningarstjórnun, síðast meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun.

Jóhanna Seljan kemur til starfa sem verkefnastjóri. Hún hefur verið virk í austfirsku menningarlífi, einkum með sönghópnum Fjarðadætrum, en hún leggur um þessar mundir lokahönd á sína fyrstu sólóplötu. Jóhanna er lærður leikskólakennari en hefur síðustu misseri starfað hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði.

Í tilkynningu frá Fjarðabyggð segir að með að fá þau tvö til starfa sem fyrst sé tryggt að áfram verði haldið uppi öflugu starfi á sviðum lista og menningar á sérstökum tímum. Mikilvægt sé að koma menningarlífinu sem fyrst af stað þegar það verði hægt. Þá sé mikill annatími framundan hjá Menningarstofunni við þróun skapandi sumarstarfa, sumarfrístundar barna í samstarfi við fjölskyldusvið, verkefnasmiðju fyrir börn og barnamenningarhátíðar með haustinu.

Alls sóttu ellefu um starf verkefnastjóra Menningarstofu Fjarðabyggðar. Þau voru:

Ari Bragi Kárason
Ásgeir Þórhallsson
Daníel Guðmundur Hjálmtýsson
Hjálmar Gísli Rafnsson
Hreinn Stephensen
Ive Vedeikaite
Jens Einarsson
Jóhann Ágúst Jóhannsson
Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir
Lárus Sigurðsson
Pjetur St. Arason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar