Jón Björn greiði rúmar 70.000 krónur afturvirkt í fasteignagjöld

Fjármálastjóri Fjarðabyggðar hefur samið við Jón Björn Hákonarson, fráfarandi bæjarstjóra Fjarðabyggðar, um að greiða samtals 72.504 krónur afturvirkt í fasteignagjöld af sumarhúsi Jóns Björns í Fjarðabyggð. Gjöldin eru reiknuð frá árinu 2019.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs frá í gær og minnisblaði fjármálastjóra um feril málsins. Jón Björn tilkynnti á fundi ráðsins fyrir viku að hann ætlaði að láta af störfum bæjarstjóra og taka sér leyfi úr bæjarstjórn um þessi mánaðamót.

Nokkrum dögum áður hafði sveitarfélaginu borist erindi þar sem bent var á að skráningu væri ábótavant og þar með greiðslu fasteignagjalda af sumarhúsi Jóns Björns í Fannardal, sem gengur inn úr Fannardal. Bróðir Jóns Björns var þar landeigandi þar til í fyrra og systkini hans einnig með sumarhús.

Jón Björn hefur lítið tjáð sig um málið en sagt pólitíska andstæðinga reyna að gera endanlega út um stjórnmálaferil hans með að spyrða það saman við starfslok hans. Í grein sem bróðir hans Guðröður ritaði á Austurfrétt segir hann farið í rangan mann, landamálin séu milli hans og Fjarðabyggð.

Tímabundið stöðuleyfi 2006


Í samantekt fjármálastjórans, Snorra Styrkárssonar, er málið rakið á svipaðan hátt og í grein Guðröðar. Þar kemur að við uppgjör erfðamála hafi Guðröður eignast jörðina Fannardal en fjöru systkini hans landspildur. Strax árið 2006 óskar systir þeirra bræðra eftir að byggja þar sumarhús. Sveitarfélagið hafnar beiðninni þá því deiliskipulag vanti en heimilar byggingafulltrúa að gefa út tímabundið stöðuleyfi til bráðabirgða fyrir húsunum.

Guðröður, sem landeigandi, hóf þá deiliskipulagsgerð og lagði það fram árið 2008. Fjarðabyggð gerði þá athugasemdir, meðal annars um mörk vatnsréttindasvæðis. Guðröður lagði fram aðra tillögu árið 2011 og var hún send í auglýsingu. Meðan því ferli stóð dró Guðröður tillöguna til baka, meðal annars vegna deilna um vatnsréttindin. Bæjarráð féllst á að stöðva deiliskipulagsferlið í samræmi við ósk hans.

Snorri telur ekki rétt að rekja ágreininginn frekar en tekur fram að afleiðingin hafi verið sú að krafa Fjarðabyggðar um deiliskipulagið krafðist. Deiliskipulag er á ný lagt fram af Guðröði árið 2018 og staðfest undir lok þess árs. Þar eru sumarbústaðalóðirnar inni, Fönn 1-4 og Fannardalur 1. Snorri skrifar að fram að þeim tíma sé málið alfarið á forræði og ábyrgð landeiganda en ekki hinna systkinanna.

Ekki hægt að krefjast neins fyrr en skipulag liggur fyrir


Samkvæmt minnisblaðinu hafa nú verið stofnaðar lóðir fyrir fjórum af fimm mannvirkjum. Út af stendur Fannardalur 1, ekki er enn komin beiðni um að stofna hana. Hús eru risin á þremur lóðum til viðbótar.

Snorri segir að ljóst að eigendur sumarhúsanna hafi ekki getað sótt um leyfi fyrir byggingunum og Fjarðabyggð ekki getað skráð þær í fasteignaskrá fyrr en skipulagið var samþykkt. Fjarðabyggð hafi hins vegar leyft framkvæmdum að halda áfram vitandi að skráning og endanlegt samþykki lægi ekki fyrir fyrr en deiliskipulagið væri komið alla leið.

Því hafi 2019 verið fyrsta árið þar sem hægt var að leggja fasteignagjöld á sumarhús systkinanna. Á árunum 2019-22 er lögð fasteignagjöld á landið en ekki sumarhúsin sem voru óskráð. Nú hafi verið skráð sumarhús á Fönn 4, sem er lóð og hús Jóns Björns og gefa út kröfu fyrir fasteignagjöldum fyrir þetta ár.

Samantektin kemur í kjölfar tölvupósts, sem Fjarðabyggð barst fyrir tæpum tveimur vikum, frá einstaklingi sem benti á að engin mannvirki væru skráð á lóðunum Fönn 1-4 né Fannardal. Snorri skrifar að eiganda byggingar beri aðeins að greiða af henni gjöld frá skráningardegi en Jón Björn hafi áður boðist til að greiða fasteignagjöld afturvirkt, um leið og öll gögn lægju fyrir. Snorri hafi því samið við Jón Björn að greiða gjöld upp á 72.504 krónur fyrir árin 2019-22 í samræmi við fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Snorri lýkur minnisblaðinu á að segja að tekjur Fjarðabyggðar af álagningu fasteignagjalda vegna sumarhúsanna hefðu ekki numið verulegum upphæðum.

Ekkert kemur fram í minnisblaðinu um stöðu annarra fasteigna á svæðinu. Guðröður seldi jörðina í fyrra. Engin frekari viðbrögð við minnisblaðinu er að finna í fundargerð bæjarráðs.

Mynd: Landsvirkjun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.