Jóna Árný: Samfélaginu var úthlutað nýjum veruleika

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir nýjan veruleika hafa blasað við Norðfirðingum eftir tvö mannskæð snjóflóð sem féllu á byggðina í Neskaupstað þann 20. desember árið 1974. Hún segir sögur frá þessum örlagaríka degi bæði fela í sér sorg en líka seiglu og von.

Þess var minnst í Neskaupstað í gær að hálf öld er liðin frá snjóflóðunum sem kostuðu 12 mannslíf og ollu mikilli eyðilegginu. Fyrst var minningarathöfn í Norðfjarðarkirkju og síðan minningarstund við minnisvarða um þá sem fórust í flóðunum, sem staðsettur er við varnargarðana innst við bæinn.

Þar gátu viðstaddir kveikt á útikertum og í lok athafnarinnar kveiktu félagar úr Björgunarsveitinni Gerpi á 12 blysum á meðan hinna látnu var minnst með mínútu þögn. Að því loknu var kaffisamsæti í Safnahúsinu.

„Það var nýr veruleiki sem samfélaginu okkar var úthlutað þennan örlagaríka dag. Við misstum samborgara okkar. Fólk sem voru foreldrar, makar, dætur og synir, afa- og ömmubörn, ættingjar, vinir, leikfélagar, vinnufélagar og góðir samborgarar í samfélaginu okkar hér í Norðfirði,“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, í ávarpi sem hún hélt við ljósastundina við minningareitinn.

Saga sorgar og áfalla en líka seiglu, vonar og væntumþykju


Hún sagði á að sama tíma og fólk fókst á við sorgina hefðu verið unnin þrekvirki við leit og björgun. Allir sem gátu unnu sleitulaust við erfiðar aðstæður og óvissur. Eftir um 12 tíma bættist loks við liðsauki frá nágrannabyggðum. Jóna Árný sagði framlag alls þessa fólks seint verða fullþakkað enda hefði það bjargað mannslífum.

Jóna Árný sagði snjóflóðin í Neskaupstað hafa breytt því að farið var að skrá og meta hættu á snjóflóðum þannig komið var á reglubundnu eftirliti. Hugmyndir komu einnig fram um varnarmannvirki þótt áratugir hefðu liðið áður en þau risu. Framkvæmdir hófust í sumar við síðasta og ysta áfangann í vörnunum.

Jóna Árný er uppalinn Norðfirðingur en fædd eftir flóðin. Hún kom inn á hvernig allar fjölskyldur á Norðfirði á þessum tími eigi sögur af fólki sem ýmist var statt af tilviljun á flóðasvæðinu eða utan þess. Sögur þess hafi síðar skapað lærdóm fyrir samfélagið. „Þetta er saga af sorg og áföllum en líka saga seiglu, vonar og væntumþykkju fyrir samfélaginu okkar sem hefur þurft að takast á við náttúruöflin og áföll því tengt oftar en einu sinni.“

Mikilvægt að skrásetja söguna


Jóna Árný hefur verið bæjarstjóri síðan 1. apríl árið 2023. Fjórum dögum fyrr féllu snjóflóð á byggð utarlega í bænum en þá varð mannbjörg. Þau flóð hafi þó vakið upp óþægilegar minningar. Þekking hafi hins vegar komin til þannig hægt væri að tala um áfallið. Jóna Árný kom einnig inn á að bækur, heimildarmyndir og önnur opinber umræða um snjóflóðin 1974 hefðu verið mikilvægar til að skrásetja atburðina, flytja þekkingu til nýrra kynslóða og hjálpa til við að vinna úr erfiðum minningum.

Hún kom einnig inn á að styrkur samfélagsins hefði bæði 1974 og 2023 sýnt sig, jafnt í björgunarsveitum við leit og björgun fólks eða Rauða krossinum við sálgæslu. „Snjóflóðin 1974 eru atburðir sem við sem samfélag berum með okkur áfram inn í framtíðina. Dagurinn í dag er áminning um mikilvægi þess að hlúa að okkur, bera virðingu fyrir þeim sem á undan okkur komu í að takast á við áföll og byggja upp eftir hamfarir blómlegt samfélag og sterkt atvinnulíf sem við búum enn að í dag.“

Nesk Snjoflodaminning 20241220 0004 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0045 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0005 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0042 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0049 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0040 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0009 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0014 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0016 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0021 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0028 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0032 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0050 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0035 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.