Kambaskriður lokaðar vegna snjóflóðs
Vegurinn um Kambaskriður, milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur, er lokaður eftir að snjóflóð féll á veginn. Búist er við að opnað verði aftur um klukkan tíu.Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á Reyðarfirði er flóðið um 50 metra breitt og þriggja metra hátt.
Það féll klukkan rúmlega níu í morgun og hafði var ruðningsbíll þá nýfarinn um skriðurnar. Reiknað er með að búið verði að moka í gegnum flóðið um klukkan tíu og vegurinn þá opinn á ný.
Flestar leiðir á Austurlandi eru nú vel færar en mikil hálka er á svæðinu frá Fáskrúðsfirði til Djúpavogs og er unnið að því að hálkuverja.
Veðurstofan telur töluverða hættu á snjóflóðum á Austfjörðum í dag og á morgun. Snjór hefur víða safnast saman í giljum og farvegum sem orðið getur óstöðugur í rigningu og hláku. Mörg flekahlaup féllu um helgina, þar af tvö með nokkuð drjúga skriðlengd.