Skip to main content

Karlakórinn Drífandi flaug með Iron Maiden þotunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. ágú 2011 12:21Uppfært 08. jan 2016 19:22

iron_maiden_express_kanada_egs_0004_web.jpgTónlistarbransinn tekur á sig ýmsar myndir. Á fimmtudag lágu leiðir karlakórs og þungarokks saman þegar karlakórinn Drífandi af Fljótsdalshéraði flaug til Kanada í flugvél merktri bresku rokksveitinni Iron Maiden.

 

Flugið var á vegum Iceland Express en flogið var beint frá Egilsstöðum til Winnipeg í Kanada með millilendingu í Keflavík. Þar var tekið eldsneyti en flugbrautin á Egilsstöðum mun vera of stutt til að vélin hefði getað farið þaðan fullhlaðin.

Meðlimir úr karlakórnum voru samt ekki einir um að fylla í vélina því margir Austfirðingar nýttu tækifærið til að heimsækja Íslendingaslóðir í Vesturheimi.

Þotan er frá Astreaus flugfélaginu sem flýgur fyrir Express. Þar starfar flugstjórinn Bruce Dickinson, sem jafnframt er söngvari Iron Maiden sem hefur verið á tónleikaferð um heiminn í ár. Bruce mun þó ekki hafa verið flugstjóri á fimmtudaginn þar sem Járnfrúin tryllti lýðinn á tónleikum í Manchester í Englandi það kvöld.