Karlakórinn Drífandi flaug með Iron Maiden þotunni
Tónlistarbransinn tekur á sig ýmsar myndir. Á fimmtudag lágu leiðir karlakórs og þungarokks saman þegar karlakórinn Drífandi af Fljótsdalshéraði flaug til Kanada í flugvél merktri bresku rokksveitinni Iron Maiden.
Flugið var á vegum Iceland Express en flogið var beint frá Egilsstöðum til Winnipeg í Kanada með millilendingu í Keflavík. Þar var tekið eldsneyti en flugbrautin á Egilsstöðum mun vera of stutt til að vélin hefði getað farið þaðan fullhlaðin.
Meðlimir úr karlakórnum voru samt ekki einir um að fylla í vélina því margir Austfirðingar nýttu tækifærið til að heimsækja Íslendingaslóðir í Vesturheimi.
Þotan er frá Astreaus flugfélaginu sem flýgur fyrir Express. Þar starfar flugstjórinn Bruce Dickinson, sem jafnframt er söngvari Iron Maiden sem hefur verið á tónleikaferð um heiminn í ár. Bruce mun þó ekki hafa verið flugstjóri á fimmtudaginn þar sem Járnfrúin tryllti lýðinn á tónleikum í Manchester í Englandi það kvöld.