„Kennarar eru lykilmenn þegar kemur að þjálfun í lestri“

„Stóra upplestrarkeppnin, hefur öll þau ár sem hún hefur verið við lýði, sannað að hún á erindi við börnin og verið stór þáttur í eflingu læsis á miðstigi grunnskóla,“ segir Jarþrúður Ólafsdóttir, kennsluráðgjafi á Skólaskrifstofu Austurlands og umsjónarmaður keppninnar á Austurlandi.



Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk var haldin í sextánda skipti á Austurlandi í vikunni, en ellefu skólar tóku þátt í keppninni í ár. Keppnin er svæðaskipt í norður- og suðursvæði Austurlands.

Héraðshátíð norðursvæðis var haldin í Egilsstaðaskóla á þriðjudaginn. Fimm skólar tóku þátt, Egilsstaðaskóli, Brúarásskóli , Fellaskóli, Seyðisfjarðarskóli og Vopnafjarðarskóli. Þar kepptu þrettán börn en í fyrsta sæti varð Rafael Rökkvi Freysson í Fellaskóla. Í öðru sæti varð Mekkín Ann Bjarkadóttir úr Brúarásskóla og í þriðja sæti varð Hákon Ingi Stefánsson frá Vopnafjarðarskóla. Að venju voru flutt tónlistaratriði og nú sáu nemendur úr Tónlistarskólanum í Fellabæ um tónlistina.

Héraðshátíð suðursvæðis var svo haldin í Kirkjumiðstöðinni Eskifirði i gær. Þar tóku sex skólar þátt, Nesskóli, Grunnskólinn Eskifirði, Grunnskóli Reyðarfjarðar, Grunnskóli Mjóafjarðar, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar og Grunnskóli Breiðdalshrepps. Alls kepptu þar fjórtán börn en í fyrsta sæti varð Blædís Birna Árnadóttir úr Grunnskóla Eskifjarðar. Í öðru sæti varð Jóhanna Björg Sævarsdóttir úr Grunnskóla Mjóafjarðar og í þriðja sæti var Karítas Embla Óðinsdóttir frá Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar. Tónlistaratriði á hátíðinni voru að þessu sinni frá Tónlistarskólanum á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði.

Ingibjörg Einarsdóttir formaður Radda, félagsskaps um vandaðan upplestur og framsögn, var yfirdómari í keppninni og með henni starfaði heimafólk. Magnús Stefánsson fyrrverandi skólastjóri á Fáskrúðsfirði stjórnaði upplestrarkeppninni en Skólaskrifstofa Austurlands hefur haft veg og vanda af keppninni frá upphafi.


Samvinnuverkefni nemenda, kennara og foreldra

„Ég hef oft séð börn með talsverða lestrarerfiðleika sigra á Héraðshátíðum, en hver uppsker sem hann sáir til. Kennarar eru lykilmenn þegar kemur að þjálfun í lestri. Þeir leggja tækifærin upp í hendurnar á nemendum sínum og skapa þeim tíma og aðstæður til að lesa, en auðvitað þurfa nemendurnir sjálfir að leggja ýmislegt á sig líka. Héraðshátíðarnar endurspegla árangurinn af vinnu kennara og nemenda. Foreldrar eru svo þriðji aðilinn sem kemur að þessu verkefni því með hvatningu sinni til barnanna sinna og utanumhaldi eiga þeir stóran þátt í velgengi í þessum efnum sem og öðrum,“ segir Jarþrúður.

Keppendur á norðursvæðinu. Ljósmynd: Jóhanna Kristín Hauksdóttir. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.