Kennarar tilbúnir að gera það sem þarf til að fá leiðréttingu launa

Kennarar á Fljótsdalshéraði lögðu niður störf eftir hádegið og gengu á fund bæjarráðs og bæjarstjóra til að leggja áherslu á kröfur sínar um bætt kjör. Talsmaður kennara segir fólk úr stéttinni velja önnur störf þar sem betra kaup bjóðist.


Kennarar í Egilsstaðaskóla, Fellaskóla og Brúarásskóla hættu að vinna klukkan hálft tvö og héldu eftir á bæjarskrifstofurnar þar sem þeir afhentu undirritað bænaskjal sitt.

Í ályktuninni er farið fram á að bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs beiti sér fyrir því að gengið verði frá samningum við kennara sem fyrst en samningar þeirra hafa verið lausir um nokkurt skeið. Varað er við að endurnýjun í stéttinni sé lítil og það sé á ábyrgð sveitastjórna að skólahald haldist eðlilegt.

Áskorunin er í anda annarra áskorana sem kennarar víða um land hafa afhent sveitastjórnum að undanförnu. „Það var vel á móti okkur tekið. Bæjarstjórinn svaraði að málin væru í höndum samninganefndar sveitarfélaganna en við svörum að við teljum að sveitastjórnirnar eigi að koma því sjónarmiði til nefndarinnar að semja skuli fljótt og vel. Það dugir ekki bara að segja að þeir séu hluti af hópi. Það hlýtur að mega áhrif á stefnuna eins og í öðrum félögum.“

Dagur segir kennara samstíga í aðgerðum sínum. „Andinn er að menn vilja leiðréttingu á laununum þannig þeir verði nær því sem eðlilegt sé miðað við þær kröfur um menntun og ábyrgð sem gerðar eru. Það eru allir tilbúnir að gera það sem til þarf svo það gangi eftir.“

Borist hafa fregnir af því að kennarar séu farnir að segja upp störfum en Dagur segir það ekki enn stöðuna á Héraði. „Ég hef ekki heyrt mikið um uppsagnir á okkar svæði. Ég held að fólk bíði frekar eftir að skólaárið klárist en við höfum misst fólk í önnur störf út af launum.“

Í áskoruninni fólst einnig boð til bæjarstjórnar og fræðslunefndar að koma í skólana til að skoða starfið þar. Dagur segir vel hafa verið í það tekið og von sé á að fulltrúar sveitastjórnar líti við á næstunni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.