Kindurnar tregar heim á góðu hausti

Austfirska sauðfjárbændur vantar enn töluver í safn sitt þrátt fyrir göngur í haust. Kindurnar virðast tregar heim þar sem haustið hefur verið sérstaklega gott.


„Það vantaði víða mjög margt þegar ég var á Suðurfjörðum fyrir skemmstu og ég hef heyrt svipaðar sögur úr sveitum þar sem kindur geta verið hátt uppi í fjöllum eins og Skriðdal og Hjaltastaðaþinghá,“ segir Guðfinna Harpa Árnadóttir, ráðunautur hjá Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins á Austurlandi.

Hún telur ólíklegt að féð hafi farist, gott haust sé líklegast skýringin á því að enn vanti fé. Guðfinna Harpa segir bændur víða enn að smala og bíða eftir að kólni. Snjókoma í fjöll á Úthéraði um síðustu helgi hafi átt að hjálpa til.

Ef ekki gerir fjárskaðaveður eigi kindurnar að nást heim. Spurningin sé hins vegar hvað hægt sé að gera við þær þar sem búið sé að loka öllum sláturhúsum. Aukakostnaður geti fallið á bændur þurfi þeir að leigja sér húsnæði annars staðar og keyra á milli til að koma fé sínu fyrir.

„Vonandi koma menn þessu fyrir í húsum sínum, ef húsin eru ekki mjög þétt setin fyrir. Það ætti að minnsta kosti að vera nóg af góðu heyi til eftir þetta sumar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.