Kjartan Reynisson: Ekki allt fengið með göngum

Norðfirðingar eiga von á mikilli lífskjarabót þegar ný Norðfjarðargöng verða opnuð í sumar. Ekki er þar með allt unnið. Nágrannar þeirra á Fáskrúðsfjarðar segjast hafa háð varnarbaráttu á ýmsum sviðum þau tíu ár sem liðinu eru síðan göng þangað voru opnuð.


Þetta kom fram í máli Kjartans Reynissonar, formanns íbúasamtaka Fáskrúðsfjarðar og útgerðarstjóra Loðnuvinnslunnar á málþingi sem áhugahópur um ný Norðfjarðargöng gekkst fyrir í Egilsbúð nýverið.

Fáskrúðsfirðingar upplifðu samgöngubætur árið 1976 þegar vegur opnaði um Vattarnesskriður en áður lá leiðin til Reyðarfjarðar um Staðarskarð. Aftur urðu miklar bætur þegar Fáskrúðsfjarðargöng opnuðu haustið 2005.

„Okkur fannst þetta flottustu göng á Íslandi þegar þau voru opnuð,“ sagði hann. Fljótlega urðu menn hins vegar þess áskynja að eitt og annað vantaði, einkum fjarskiptasamband ef óhapp yrði í göngunum. Úr því var bætt. Eins taldi Kjartan að fræstar raufar milli akreina ykju öryggi. „Það svífur á menn þegar þeir koma inn í göng.“

Atvinnutækifæri í báðar áttir

Kjartan sagði atvinnutækifæri í báðar áttir hafa skapast þegar göngin opnuðu. Í fyrsta lagi hefði Loðnuvinnslan, aðalatvinnuveitandi bæjarins, getað hagrætt. „Menn kulna í starfi en það var ekki hægt að taka á því. Að segja starfsmanni upp var eins og að reka hann af staðnum.“

Tugir Fáskrúðsfirðinga sækja nú vinnu daglega í álverið á Reyðarfirði. Á móti hafa opnast tækifæri við dvalar- og hjúkrunarheimilið Uppsali. Þangað hafi komið bæði starfsmenn og vistmenn úr norðurátt.

Sérvöruverslun horfin

„En þetta er ekki allt eins og grasið græna. Það fylgdu líka vandamál og högg fyrir atvinnulífið,“ sagði Kjartan. Öll sérvöruverslun er til dæmis horfin af Fáskrúðsfirði. „Þess vegna segi ég við ykkur: verslið í heimabyggð ef þið viljið hafa þjónustuna.“

Eins lokaði Landsbankinn útibúi sínu á staðnum og þar með hvarf bankaþjónustan. „Látið aldrei viðskiptin við Sparisjóðinn drabbast niður. Haldið uppi samkeppni ef þið viljið halda í Landsbankann.“

Eins gagnrýndi hann þjónustu sveitarfélagsins. Vissulega hefði þurft að breyta henni með sameiningum en salan á áhaldahúsinu, einkum snjóruðningstækjunum, sat í honum. „Á Fáskrúðsfirði eru þrjár götur í gegnum endilangan bæinn og við vorum með hefil sem fljótur var að stinga í gegn. Ef það var hægt var leiðin greið. Þess vegna skipti máli að hafa hann.“

Kjartan bætti á móti við að víða væri samvinnan öflug, svo sem um uppbyggingu Skólamiðstöðvarinnar, íþróttastarfi og félagsstarfi eldri borgara.

Látum aldrei taka sjúkrabílinn

Mestu varnarbaráttuna hafa Fáskrúðsfirðingar hins vegar háð í heilbrigðismálum. Áður hafi verið föst læknisstaða á Fáskrúðsfirði og þótt illa hafi gengið að manna hana eins einsog átti hafi samt yfirleitt verið læknir á staðnum.

Nú komi læknir tvisvar í viku annars staðar frá. Endurnýjun tækja á heilsugæslustöðunni „þekkist ekki“ og lyfsala hefur lagst af. „Þótt læknirinn komi á staðinn þarf að fara á Reyðarfjörð til að kaupa lyfin.“

Eins hafi Fáskrúðsfirðingar „lent í hörkuslag“ til að halda sjúkrabíl á staðnum. Kjartan sagði bæinn státa af „mjög góðum sjúkraflutningamönnum“ og samfélagið hefði safnað fyrir bílnum og tækjum í hann. „Það verður mjög erfiður tanndráttur að taka hann af okkur. Við látum það aldrei yfir okkur ganga.“

Eigið mikið gott í vændum

En í heildina sagði Kjartan Norðfirðinga eiga mikla lífskjarabót framundan. „Þið eigið mikið gott í vændum með uppbyggðan veg á láglendi. Fáskrúðsfjarðargöng eru dásamlegt samgöngumannvirki og ég get ekki beðið eftir að þið fáið ykkar bætur.

Með að losna við þennan fjallveg færumst við líka nær því að nýta það góða sem Norðfjörður hefur upp á að bjóða. Það verða börn okkar eða barnabörn sem hætta að tala um sig sem Norðfirðinga eða Fáskrúðsfirðinga heldur íbúa samfélagsins Fjarðabyggðar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar