Klæðningu vegarins til Borgarfjarðar flýtt

Malarvegum á Fljótsdalshéraði mun fækka til muna með fjármagni til flýtiframkvæmda í Vegagerð á næstu tveimur árum. Lokið verður við að klæða veginn um Fell og til Borgarfjarðar.

Þetta kemur fram þegar farið er yfir sundurliðun á fjármagni sem samgönguráðherra hefur veitt til flýtingu samgöngubóta, en fjárveitingin er hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar umviðspyrnu vegna Covid-19 faraldursins.

Eitt stærsta verkefnið er klæðning á kaflanum frá Eiðum og að bænum Laufási í Hjaltastaðaþinghá. Í samgönguáætlun, sem lögð var fram í haust, var gert ráð fyrir að framkvæmdir við kaflann hæfust ekki fyrr en árið 2024.

Nú hefur verið veitt 30 milljónum til hönnunar verksins. Í bókun frá fundargerð bæjarráðs Fljótsdalshéraðs með fulltrúum Borgarfjarðarhrepps og Vegagerðarinnar kemur fram að gert sé ráð fyrir fjármagni til framkvæmda á árunum 2022. Vonast er til að hægt verði að bjóða vegagerðina út í síðasta lagi í apríl/maí á næsta ári.

Milljarði er veitt til að klæða tengivegi í ár og 1,5 milljarði á næsta ári, til viðbótar við fyrri áætlanir. Af heildarúthlutuninni koma þó ekki nema tæp 10% í hlut Austurlands. Þetta fé nýtist þó meðal annars í að klára að klæða veginn um Fell.

Í ár eru settar 20 milljónir í að klæða veginn frá Teigabóli að Bolalæk og á næsta ári eru 200 milljónir ætlaðar í endurgerð vegarins um Ásklif. Þá stendur einnig til að klæða milli Arnórsstaða og Hákonarstaða á Jökuldal í ár, það kostar alls 70 milljónir sem dreifast nánast jafnt milli ára.

110 milljónum er veitt í veginn frá Hofsá að bænum Öxl í sunnanverðum Vopnafirði. Þá fara 20 milljónir í að klæða við bæinn Ós í Breiðdal. Bæði verkin stendur til að vinna í ár.

Tvö önnur verkefni á Austurlandi er að finna í yfirliti Vegagerðarinnar. Fimmtán milljónir kostar að breikka brúna yfir Gilsá sem skilur að Velli og Skriðdal og 61 milljón fer í stálþil við höfnina á Djúpavogi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar