Klæðningin fauk af í Fellum

Klæðning hefur fokið af á um 20 metra kafla á veginum milli Teigabóls og Skeggjastaða í Fellum. Bálhvasst er víða á Austurlandi.


„Ég held ég hafi aldrei farið um Fellin í jafn samfelldu roki,“ segir Sveinn Ingimarsson sem átti leið um svæðið í dag.

Mynd sem hann setti á Facebook hefur vakið nokkra athygli en þar sést hvernig þykk klæðning hefur svipst af á um 20 metra kafla.

Þá brotnaði rúða í Fellaskóla í rokinu.

Víða er rokhvasst á Austurlandi og sýna þó nokkrar veðurstöðvar 40 metra í hviðum, svo sem á Oddsskarði, Öxi, Breiðdalsheiði, Vatnsskarði, í Hamarsfirði og Stafdal. Veginum yfir Fjarðarheiði var lokað á þriðja tímanum.

Lokað var yfir Möðrudalsöræfi í hádeginu eftir að þrjár rútur lentu í vandræðum í Langadal. Þar hefur vindurinn einnig verið 40 metrar í hviðum.

Búist er við hvassviðri fram undir miðnætti.

Mynd: Sveinn Ingimarsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar