Körfubolti: Valur vann fyrsta leikinn í einvíginu

Deildarmeistarar Vals unnu fyrsta leikinn í einvígi þeirra og Hattar í átta liða úrslitum Íslandsmót karla í körfuknattleik, 94-75, en leikið var á Hlíðarenda í gærkvöldi.

Höttur var lengst af yfir í fyrsta leikhluta en það breyttist síðustu einu og hálfu mínútuna þegar Valur skoraði sjö stig í röð og var því yfir 23-19 að honum loknum.

Höttur hélt áfram í við heimaliðið fram í miðjan annan leikhluta. Valur skoraði þá átta stig í röð, breytti stöðunni úr 27-29 í 35-29. Staðan í hálfleik var síðan 45-37.

Höttur skoraði fyrstu tvær körfurnar í öðrum leikhluta. Valur skoraði þá átta stig í röð og komst í 52-41. Höttur kom muninum niður í fjögur stig, 57-53 en Valur skoraði þá fjögur stig í röð og komst í átta stiga forskot. Heimamenn héldu áfram og voru 67-55 eftir þriðja leikhluta.

Þarna var Valur kominn með nokkuð góð tök á leiknum. Liðið bætti áfram í forustuna og komst nærri 20 stigunum en aldrei yfir þau. Lokamunurinn var sá mesti, 94-75.

Höttur hafði fyrr í vetur tapað báðum leikjum sínum gegn Val. Báðir höfðu þó spilast þannig að Höttur hafði átt góðan fyrri hálfleik en Valur lokað vörn sinni í seinni hálfleik. Líkt og þá bætti Valur heldur í kraftinn í seinni hálfleik í gær.

Ólíkt mörgum leikjum í vetur gekk Hetti illa í þriggja stiga skotum. Nýting liðsins í leiknum utan línunnar var 29%, þar af 0/5 hjá Deontay Buskey, sem þó var stigahæstur með 18 stig og 3/11 hjá Obie Trotter. Adam Eiður Ásgeirsson setti niður öll fjögur þriggja stiga skot sín, en lenti í villuvandræðum og spilaði því aðeins rúmar 19 mínútur.

Liðin mætast aftur á Egilsstöðum klukkan 19:00 á sunnudagskvöld.

Mynd: Daníel Þór Cekic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar