Konur taka af skarið

„Markmiðið með námskeiðunum er að valdefla og hvetja konur til þess að taka þátt og hafa áhrif innan verkalýðshreyfingarinnar,” segir Kristín Heba Gísladóttir sem stendur fyrir námskeiðinu Konur taka af skarið á Egilsstöðum á laugardaginn.

 

 


Námskeiðið verður haldið í húsakynnum AFLs, Miðvangi 2-4, milli klukkan 11:00 og 17:00 á laugardaginn. Það er opið öllum konum sem eru félagar í Starfsgreinasambandi Íslands eða í starfsmannafélögum sveitafélaganna, þeim að kostnaðarlausu.

Skráning fer fram gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 461 4006. Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkamður.

Dagskráin er vegleg og valdeflandi og hefur yfirskriftina; viltu láta til þín taka og hafa áhrif á verkalýðsbaráttuna og samfélagið?

• Að bjóða kynjakerfinu birginn
• Staða verkalýðsbaráttunnar í dag
• Uppbygging verkalýðsfélaganna
• Leiðtogaþjálfun
• Að hafa áhrif og koma sínu á framfæri
• Að starfa í verkalýðshreyfingunni

„Fannst við hafa hitt á gott módel”
Kristín Heba er framkvæmdastjóri Akureyrar Akademíunnar, sjálfseignarstofnunar sem byggir á grunni Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi.

„Upphafið af þessu verkefni er sú að fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar var umræða hér á Akureyri að erfitt væri að fá konur á lista stjórnálaflokkanna. Sú hugmynd kviknaði hjá okkur nokkrum hvort við gætum sett saman námskeið fyrir konur sem hefðu áhuga á stjórnmálum, óháð flokkum. Við enduðum á því að útbúa námskeið á skömmum tíma sem haldið var tvo laugardaga. Það tókst svona frábærlega vel til og þátttakendur voru skemmtileg blanda af fyrrverandi ráðherrum, reyndum sveitarstjórnarkonum og komum á öllum aldri sem höfðu enga reynslu af stjórnmálum, en mikinn áhuga. 

Við vorum alveg í skýjunum með þetta og þegar listarnir frá flokkunum voru opinberaðir kom í ljós að þar voru ótrúlega margar konur af námskeiðunum. Við vorum mjög ánægðar með okkur og fannst við hafa hitt á eitthvað skemmtileg módel. Við tókum þó eftir því að sá hópur kvenna sem sótti námskeiðin samanstóð eingöngu af menntuðum konum þannig að við sáum að við yrðum að ná til fleiri hópa. 

Í framhaldinu höfðum við samband við Starfsgreinasambandið en þá var Drífa Snædal framkvæmdastjóri þess. Úr varða að AkureyrarAkademían, Jafnréttisstofa, Starfsgreinasambandið og JCI-sproti sóttu um styrk í jafnréttissjóð til þess að halda námskeið fyrir konur í verkalýðshreyfingunni. Hann fengum við og erum nú að halda sex námskeið, víðs vegar um landið, fyrir verkakonur,” segir Kristín Heba.

Mikilvægt að sjónarmið sem flestra heyrist
Kristín segir að þau þrjú námskeið sem af eru hafi tekist mjög vel. „Til okkar hafa mætt ótrúlega flottar og öflugar konur sem eru tilbúnar að láta til sín taka í verkalýðsbaráttunni. Þó svo að vinnudagarnir séu langir kemur maður endurnærður heim og við erum að læra mun meira af þessum konum en þær af okkur. Drífa Snædal er með okkur á öllum námskeiðunum sem er alveg frábært því hún veit allt um þessi mál. Ég hvet konur til þess að mæta og vera með okkur á Egilsstöðum á laugardaginn því það er svo mikilvægt að sjónarmið sem flestra heyrist því þannig erum við fær um að taka betri ákvarðanir.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar